136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

svör ráðherra í utandagskrárumræðu.

[11:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég frábið mér þessar leiðbeiningar frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem mælti þær af sínu hjartans lítillæti sem allir þekkja sem hafa hlustað á hana úr ræðustól Alþingis. Sannleikurinn er sá að þingmenn þurfa ekkert þessar leiðbeiningar, hins vegar blasir við að núverandi ráðherrar þurfa greinilega að fá leiðbeiningar um það hvernig þeir eiga að umgangast þingið og svara fyrirspurnum sem lagðar eru fram með eðlilegum hætti.

Það sem hér hefur einfaldlega verið gert er að þess hefur verið óskað að mjög mikilvæg mál séu skýrð. Ekki hefur verið orðið við þeim óskum, þingmenn hafa reynt að gera það hér úr ræðustól Alþingis, það hefur verið reynt með fyrirspurnum, með opnum þingnefndarfundum. Það hefur ekki borið árangur og þess vegna er beiðnin sú til hæstv. forseta að hún hlutist til um það að ráðherrarnir sýni þinginu þá virðingu að upplýsa um hluti sem þeir hafa lagt fram og sent til embættismanna (Gripið fram í.) í höfuðborg Bandaríkjanna. Þær upplýsingar liggja ekki fyrir hjá okkur í höfuðborg Íslands, á Alþingi, (Forseti hringir.) og það er algjörlega óeðlilegt. Hæstv. forseti (Forseti hringir.) ætti þess vegna að búa til þessar leiðbeiningar fyrir ráðherra og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir að spara (Forseti hringir.) sér hroka.