136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

svör ráðherra í utandagskrárumræðu.

[11:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að virðulegur forseti ætti að hlutast til um að við fáum þessi svör en ég verð að segja eins og er að mér finnst umræðan hér hjá stjórnarþingmönnum, hvernig þeir tala hér, með miklum eindæmum. Hrokinn er slíkur að ég man ekki eftir að hafa hlustað á slíkt í sölum þingsins. (SVÓ: Það er ekki úr háum söðli að detta.) Svo því sé til haga haldið er ekki um það að ræða að þeir aðilar sem hér töluðu séu þess megnugir að fara að kenna fyrrverandi forseta þingsins hvernig þingsköpin eru.

Virðulegi forseti. Þetta snýst ekki bara um þetta mál, þetta snýst um það hvort menn vilji hafa þá vinnureglu hér að fyrirspurnum sé svarað. Það er öllum ljóst sem hafa fylgst með þessum umræðum, sem hafa verið á þessum fundum, hvort sem er í heilbrigðisnefnd eða fjárlaganefnd, að fyrirspurnunum hefur ekki verið svarað. Ef menn telja svo að ráðherrar og framkvæmdarvald komist upp með að upplýsa ekki um þær spurningar sem þingið ber fram er það mál miklu stærra en það sem hér er rætt (Forseti hringir.) og þó er það gríðarlega stórt.