136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Svo að ekkert fari milli mála og enginn misskilningur sé á ferð þá ræðum við frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Það er eitt af þeim allra stærstu málum sem þjóðþing getur rætt, það eru breytingar sem boðaðar eru, hvernig sem það er gert, á sjálfri stjórnskipan lýðveldisins. Stjórnarskrármál hafa verið meira og minna til umræðu frá árinu 1944, frá lýðveldisstofnuninni, og þarf í sjálfu sér ekki að rekja mjög ítarlega með hvaða hætti staðið hefur verið að þeim málum. Í upphafi var ætlunin að fram færi heildstæð endurskoðun á stjórnarskránni en þrátt fyrir margar metnaðarfullar atlögur í þeim efnum hefur í sjálfu sér ekki mikið miðað í þeim efnum. Þegar þessi mál eru skoðuð held ég hægt sé að rökstyðja að það hafi verið röng nálgun strax í upphafi að ætla sér að fram færi heildstæð endurskoðun á stjórnarskránni. Miklu skynsamlegra hefði verið að gera það eins og síðar var ákveðið, að taka fyrir einstaka efnisþætti stjórnarskrárinnar sem kölluðu á breytingar því að það er alveg rétt sem margoft hefur verið bent á að stjórnarskrá er lykilplagg. Það er mjög mikilvægt að það sé ákveðin festa og vissa í skipan stjórnarskrárinnar. Þau lýðræðisríki sem við viljum gjarnan bera okkur saman við, og gerum það með sóma og sann, hafa yfirleitt haft þann háttinn á að í stað þess að fara í heildstæða endurskoðun reyna menn frekar að tryggja að tiltekin samfella sé í stjórnarskránni. Það er lykill að réttarfarslegu öryggi og öryggi íbúanna og borgaranna að menn viti hvernig hinar almennu leikreglur eru.

Þær breytingar sem við höfum gert á stjórnarskránni, sem gerðum til að mynda á 10. áratugnum, bæði 1991 og 1995, voru einmitt þannig gerðar að þær miðuðu að því að taka fyrir afmarkaðan þátt í stjórnarskránni sjálfri og ná um hann mikilli sátt milli stjórnmálaflokkanna og í samfélaginu. Það var gert með mikilli almennri umræðu sem þá fór fram með býsna löngum aðdraganda og sama var gert fyrir kosningarnar 2007 þegar ætlunin var að taka fyrir hluta af því sem verið er að fjalla um í því frumvarpi sem við ræðum í dag.

Því miður tókst ekki að ná eðlilegri samstöðu um málið á árinu 2007. Var það mat þáverandi meiri hluta Alþingis og raunar Alþingis í heild að skynsamlegt væri að hverfa þá frá þessari fyrirætlan. Í stað þess að knýja fram breytingar á stjórnarskránni í einhverju ósætti, jafnvel þó menn hefðu verið búnir að ná býsna langt um það að ná saman um stóra hluti málsins, var það engu að síður niðurstaða Alþingis á þeim tíma að knýja ekki fram breytingar heldur freista þess að taka lengri tíma í málið, vinna það til hlítar og í góðri sátt svo að um stjórnarskrárbreytingarnar gæti tekist almenn sátt.

Bent hefur verið á það upp á síðkastið að stjórnarskrármál hafi verið ákveðin í ósætti í þinginu og er það rétt, það eru tvö dæmi um það. En þau dæmi eru hins vegar af allt öðrum toga en málin sem við ræðum núna. Þá ræddum við um breytingar á kosningafyrirkomulagi og kosningalögum, annars vegar 1959 og hins vegar á 4. áratug síðustu aldar. Þar hafði einn stjórnmálaflokkur, Framsóknarflokkurinn, algera sérstöðu. Hann naut þess í skipan þingmanna að kosningafyrirkomulagið væri bæði óréttlátt og óskynsamlegt og það voru sérhagsmunir þess stjórnmálaflokks sem gerðu það að verkum að í báðum tilvikum sem ég nefndi frá 20. öld var ekki hægt að ná samkomulagi í málinu. Það var hins vegar breið samstaða um málið að öðru leyti og nú efast enginn um að það var bráðnauðsynleg niðurstaða á þeim tíma. Það er því mjög ólíku saman að jafna þegar við berum saman þau tvö tilvik sem nefnd hafa verið um ósætti sem var um breytingar á stjórnarskrá og það sem við ræðum í dag.

Um það hafa verið höfð nokkuð mörg orð að óeðlilegt sé að þessi mál séu rædd svo ítarlega sem raun ber vitni. Ég get ekki fallist á það. Það er mjög nauðsynlegt almennt talað að umræður um stjórnarskrárbreytingar séu mjög ítarlegar og hafi víða skírskotun. Það er kannski mesti gallinn á þeim umræðum sem nú fara fram um stjórnarskrármálið að þær fara að mestu leyti fram í sölum Alþingis. Þeir sem vilja gjarnan tjá sig um þessi mál bera því réttilega við að ekki sé hægt um vik í ljósi þess þrönga tíma sem þessum breytingum, umræðum og ákvörðunum er gefinn. Til að ná skynsamlegri niðurstöðu þurfa umræður um stjórnarskipunarmál að eiga sér langan aðdraganda. Þær umræður þurfa líka að vera þannig að þær endurspegli margvísleg viðhorf í samfélaginu því að það á ekki að vera svo að við breytum á hverjum degi stjórnarskipunarlögum eins og við gerum í dag. Þegar við gerum breytingar á Alþingi almennt um einstök mál er ekkert óeðlilegt að slík mál komi oft til endurskoðunar og þegar mönnum finnst tilefni til að gera breytingar á tilteknum lögum eru borin upp ný frumvörp í þinginu sem menn ræða um og taka síðan afstöðu til. Það er mjög eðlilegt en það er hins vegar ekki eðlilegt þegar við ræðum stjórnarskrármál.

Ég hef á undanförnum dögum og vikum farið yfir hvernig staðið er að slíkum stjórnarskrárbreytingum í öðrum löndum og ég fullyrði að hvergi nokkurs staðar þar sem ég hef kynnt mér málin hefur verið staðið að þeim málum með sama hætti og núna er gert varðandi þetta frumvarp. Engar þjóðir sem vilja kalla sig lýðræðisþjóðir og vilja ná máli í þessum efnum láta sér detta í hug að ástunda vinnubrögð eins og eru varðandi þetta frumvarp. Það er algert einsdæmi þegar kemur að stjórnarskránni, ekki bara í sögu okkar þjóðar heldur í sögu þeirra þjóða sem vilja láta taka sig alvarlega þegar kemur að lýðræðislegum vinnubrögðum og að því að endurskoða stjórnarskrána sjálfa. Hvergi nokkurs staðar á byggðu bóli þar sem menn vilja hafa lýðræðisleg vinnubrögð í heiðri mundu þeir láta sér detta í hug það sem þessi minnihlutaríkisstjórn reynir nú að knýja fram með ofríki sínu, með tilstyrk fylgihnattarins, Framsóknarflokksins, sem enginn veit frá degi til dags hvort telst stjórnarandstöðuflokkur eða í stjórnarliðinu.

Ef t.d. væri spurt í spurningakeppninni Gettu betur: Er Framsóknarflokkurinn stjórnarandstöðuflokkur eða stjórnaraðstöðuflokkur? held ég að svörin væru alltaf rétt, hver sem þau væru. Er hann stjórnarandstöðuflokkur? Já, já. Er hann stjórnarflokkur? Já, já. Er hann hvort tveggja? Já, hann er það, í anda sinnar helgu sögu, já- og nei-flokkurinn. Það er algerlega óljóst hver staða hans er nema að við vitum að hluti af þeim hrossakaupum sem gerð voru — og nú vona ég að hrossakaupmenn landsins fyrirgefi mér — þegar ríkisstjórnin var mynduð var að sjá svo um að lagt yrði á borð frumvarp um svokallað stjórnlagaþing sem er ein af þessum hugdettum sem Framsóknarflokkurinn fær gjarnan rétt fyrir kosningar. Sagan sýnir og reynslan sannar að eitt af því hættulegasta sem hent getur þjóðfélag okkar er þegar Framsóknarflokkurinn fær hugdetturnar sínar. Það getur haft afleiðingar sem ekki nokkur maður getur séð fyrir og væri fróðlegt og kannski athyglisvert á margan hátt að ræða það mál.

Þegar við skoðum hvernig staðið hefur verið að breytingum á stjórnarskrá hjá okkur á undanförnum árum, t.d. á 10. áratug síðustu aldar, sjáum við að það hefur alltaf haft býsna langan aðdraganda. Segja má að þær breytingar sem boðaðar eru í þessu frumvarpi uppfylli þau skilyrði að þær eiga sér nokkurn aðdraganda að nokkru leyti, ekki að öllu leyti. Það á t.d. við um 1. gr. frumvarpsins, um náttúruauðlindir. Þau mál voru, eins og ég tæpti á aðeins áðan, rædd ansi mikið í aðdraganda kosninga 2007 og þá var það einlægur vilji allra stjórnmálaflokka, að ég hygg, að skipa þeim málum þannig að sómi yrði að og menn gætu komist að samkomulagi um þau, en ekki tókst að ljúka því máli á þeim tíma. Það er mjög mikilvægt að ætla sér góðan tíma núna, t.d. eftir kosningarnar fram undan eru, og setjast niður með öllum stjórnmálaflokkunum sem þá eiga fulltrúa á Alþingi og opna þá umræðu enn þá frekar, t.d. með þátttöku almennings og sérfræðinga. Til þess eru margar lýðræðislegar leiðir færar. Það þarf að ræða málin til að komast niðurstöðu sem menn geta sæst á og ég fullyrði að til eru slíkar leiðir sem mjög vel færar. Það sjáum við á þeim umræðum átt hafa sér stað. Við vitum nokkurn veginn í hvaða átt við viljum stefna en það vantar hins vegar mjög á að þetta frumvarp uppfylli þau skilyrði sem við verðum að setja varðandi mál af þessu tagi.

Ég vek athygli á því að þegar við skoðum aðdragandann að þessu frumvarpi er hann ótrúlega skammur. Núverandi ríkisstjórn komst á koppinn 1. febrúar sl. Einhvern tíma í framhaldi af því var sett niður vinna tiltekinna sérfræðinga, handvalinna sérfræðinga, sem ríkisstjórnin kaus sér til að undirbúa þetta mál. Ekki var leitað eftir því að fá breiða samstöðu stjórnmálaflokkanna um þessi mál enda er mjög ólíklegt að sú vinna hefði skilað viðunandi árangri á þeim skamma tíma sem við höfðum, frá 1. febrúar fram að kosningum, 25. apríl, en engu að síður kaus ríkisstjórnin sér þessa leið. Til þess að geta knúið fram einhverja tiltekna niðurstöðu sem henni væri þóknanleg kaus hún til fylgilags við sig tiltekna, handvalda sérfræðinga, ágætisfólk, til að undirbúa þetta mál og leggja það fram í sínu nafni, á pólitíska ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna en ekki með það að augnamiði að ná pólitískri eða almennri sátt um málið.

Við sjáum það einfaldlega þegar við rekjum tímasetningarnar í undirbúningi þessa máls hvernig að öllu er staðið. Málið var síðan lagt fram í þinginu í byrjun marsmánaðar, mánuði eftir að ríkisstjórnin var mynduð eða þar um bil. Því var vísað til sérstakrar kosinnar nefndar 11. mars. Þó var ekki kosið í þá nefnd fyrr en daginn eftir og fyrsti fundur nefndarinnar var happadaginn föstudaginn 13. mars. Að kvöldi þess dags var málinu vísað frá þinginu til umsagnar, umsagnaraðilarnir fengu málið í hendur væntanlega í fyrsta lagi 14. mars. Hvenær áttu þeir sem kallaðir voru til, til að fjalla um þessi mál að skila áliti? Hvaða tíma höfðu menn til að fara yfir þessi flóknu umdeildu mál sem eru ekki einu sinni aðgengileg fyrir mestu sérfræðinga okkar, eins og kemur glögglega fram í þeim nefndarálitum og í þeim stóru og miklu umsögnum sem bárust? Þeir höfðu innan við viku, þeir höfðu sex daga, málunum var vísað úr nefnd á föstudegi, ofan í helgi, þannig að á fyrsta virka degi eftir það, væntanlega 16. mars eða þar um bil, hafa umsagnaraðilar trúlega fengið þessi gögn í hendur og beiðnina um að vinna í þessum málum. Þeir áttu að skila áliti 20. mars sem var föstudagur. Það var allur tíminn sem þeir fengu. Við ræðum hér um grundvallarplagg. Þetta er ekkert smámál, þetta eru engin neyðarlög sem kalla á að menn hafi hraðar hendur. Það er ekki verið að kippa til einhverri lítilli þingsályktunartillögu. Það er ekki verið að tala um einhverjar tæknilegar breytingar á frumvarpi. Það er verið að tala um grundvallarbreytingar á sjálfri stjórnarskrá Íslands, mál sem hv. stjórnarliðar hafa keppst við í umræðum, reyndar ekki endilega úr ræðustólnum heldur í almennri þjóðfélagsumræðu, að leggja áherslu á að séu þýðingarmiklar breytingar, stórar breytingar sem marki þáttaskil og séu viðbrögð við því sem menn hafa kallað kerfishrun í samfélagi okkar.

Og vinnubrögðin við að gera grundvallarbreytingar á sjálfri stjórnarskránni eru með þessum hætti. Með öðrum orðum, það eru valdir sérfræðingar, mætasta fólk, til að undirbúa málið, þeir fá mánuð til þess eða um það bil. Margt bendir til að það hafi verið markmið í sjálfu sér að leggja málin þannig fram að það væri í anda þess sem tillögumenn vildu en ekki gætt að því að reyna að ná pólitískri samstöðu. Síðan átti þingnefnd Alþingis að hafa 4–5 virka daga frá því að málið var sent til umsagnar og þar til umsagnaraðilar áttu að vera búnir að skila af sér. Þess vegna er ekki undarlegt að umsagnaraðilar kvarta nánast allir sem einn undan þessum vinnubrögðum.

Ég skil alveg það sjónarmið að menn vilji gera breytingar á tilteknum efnisgreinum stjórnarskrárinnar og ég er alveg sammála þeirri nálgun að við eigum að gera það með þeim hætti að við tökum fyrir einstaka þætti stjórnarskrárinnar. Það er greinilega sú aðferð sem reynslan hefur sýnt alveg frá lýðveldisstofnun að er miklu líklegri til árangurs en ætla sér það viðurhlutamikla verkefni að gera breytingar á stjórnarskránni í heild, fyrir utan það að ég hef mínar efasemdir um að efnisleg rök standi til þess að gera slíkt. Það er önnur saga. En láta sér detta í hug og sýna umsagnaraðilum þá vanvirðu að ætla þeim 4–5 virka daga til að vinna að umsögnum sínum sem menn vilja taka hátíðlega þegar við fjöllum um sjálfa stjórnarskrá okkar, er vanvirða við umsagnaraðilana og þingið, en fyrst og fremst við stjórnarskrána sjálfa og þjóðina okkar. Það er vanvirða að láta sér detta það í hug að þeir umsagnaraðilar sem við köllum til til að gefa okkur ráð, til að hjálpa okkur við að ganga frá þessu frumvarpi svo að fullur sómi sé að og menn geta verið tiltölulega sáttir við það, gengur auðvitað ekki. Það sjá allir menn að það getur ekki gengið að svona sé staðið að málum.

Ég hef sem ráðherra og þingmaður oft og tíðum lagt fram þingmál af alls konar stærðargráðum og mismunandi flókin. En aldrei held ég að mér hafi dottið í hug að leggja fram þannig frumvarp, hvorki sem þingmaður né ráðherra, af þeim toga að það kallaði á einhverja yfirlegu og bjóða síðan mönnum upp á að skila áliti með svona hraðsoðnum hætti. Enda sjáum við að það er einróma dómur nánast allra þeirra sem fjalla um þessi mál að þetta séu óboðleg vinnubrögð.

Ég lagði fram umdeilt mál sem landbúnaðarráðherra í haust og reyndar líka í fyrra um svokallað matvælafrumvarp. Mig minnir að upphaflega ætlunin hafi verið sú að veita þar hálfan mánuð eða þrjár vikur í umsagnarfrest. Þegar þess var óskað af umsagnaraðilum að hann yrði lengdur varð þingið að sjálfsögðu við því. Allir voru þeirrar skoðunar að það væri ekki mönnum bjóðandi eða þinginu bjóðandi að ætla sér minni tíma en hálfan mánuð til mánuð fyrir umsagnaraðila til að kynna sér og fara ofan í málið og senda frá sér umsagnir. Þó var það ekki stjórnarskrármál. Þar var rætt mál sem verið hafði í umræðunni árum saman og margir þekktu í meginatriðum en mér fannst það sjálfsagður hlutur að bregðast við ábendingum þeirra hagsmunaaðila sem hlut áttu að máli og var sammála þingnefndinni um að koma málum þannig fyrir að umsagnaraðilar fengju sómasamlegt svigrúm til að fara ofan í málið. Ég trúi því ekki að það geti verið vilji svo ágætra þingmanna sem flutningsmenn eru, hv. þm. Birkis J. Jónssonar, Guðjóns A. Kristjánssonar, hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, að það geti verið einlægur vilji þeirra að standa svona að málum varðandi breytingar á stjórnarskránni. Ég trúi ekki öðru en þau sjái ljósið í þessum efnum og fallist á það að þetta mál verðskuldi ekki af einhverjum pólitískum ástæðum, ekki af neinum öðrum ástæðum en þeim að við viljum vanda okkur þegar við tölum um stjórnarskrána og stjórnarskráin okkar verðskuldi að við sýnum henni þá lágmarksvirðingu að ætla okkur þann tíma sem nauðsynlegur er til að fara yfir þessi mál.

Þegar við skoðum umsagnirnar telja þeir allir undantekningarlaust sem fjalla um málið þessi vinnubrögð ótæk og væri hægt að lesa upp marga kafla úr umsögnum ýmissa aðila í þeim efnum sem rökstyðja mál mitt. Ég ætla að láta mér nægja að kalla til vitnis í þessu sambandi laganefnd Lögmannafélags Íslands. Ætli það sé ekki nefnd sem hefur nokkurt gildi þegar kemur að því að ræða um sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins? Ætli það sé ekki nefnd sem við mundum alltaf vilja hafa til ráðslags þegar við fjöllum um mál eins og þetta hér? Enda var það sent nefndinni til umsagnar. Umsögnin sem barst frá nefndinni var raunar dagsett 25. mars, 5 dögum eftir að upphaflegur umsagnartími var liðinn. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að það sé algerlega ótækt að afgreiða frumvarpið hér og nú, ekki vegna þess að nefndin andmæli því að það geti verið skynsamlegt að taka fyrir þau efnisatriði sem frumvarpið felur í sér, það er ekki það sem verið er að gera í umsögn nefndarinnar. Nefndin telur að vísu að þetta sé mjög þversagnarkennt frumvarp og það blasir við hverjum einasta manni sem les það, það þarf enga sérfræðinga til að segja okkur það. Það er undarlegt að gera fyrst breytingar á tilteknum þáttum stjórnarskrárinnar og leggja svo drög að því að búið sé til eitthvert „apparat“ sem heitir stjórnlagaþing sem á síðan að endurskoða sömu efnisatriði og við leggjum hér drög að að breyta.

Það sem nefndin segir í lokamálsgrein umsagnar sinnar er þetta, með leyfi virðulegs forseta:

„Að mati laganefndar eru þær breytingar á stjórnarskránni sem eru boðaðar með frumvarpinu í raun grundvallarbreytingar.“

Það er mjög mikilvægt að átta sig á þessu, svo ég grípi inn í þennan upplestur. Það sem nefndin segir hér er að þetta eru ekki minni háttar lagfæringar á stjórnarskránni sem verið er að fjalla um, þetta eru grundvallarbreytingar, stórmál. Þetta stórmál áttu umsagnaraðilar að hafa fimm virka daga til að fjalla um. Ég held nú áfram lestri mínum, með leyfi virðulegs forseta:

„Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingu er að ræða.“

Enn gríp ég inn í. Þetta hlýtur að vera sjálfgefinn hlutur. Það hlýtur að vera svo, þingmenn geta ekki annað en fallist á það sjónarmið að þegar við gerum grundvallarbreytingar á stjórnarskránni gefum við okkur sómasamlegan tíma til þess. Getur nokkur maður sagt að það sé gert með sómasamlegum hætti þegar þannig er staðið að málum eins og ég hef rakið? Undirbúningurinn er á forræði ríkisstjórnarinnar án breiðrar samstöðu þingmanna og Alþingis án þess að fram hafi farið eðlileg umræða úti í þjóðfélaginu og það er gert með þeim hætti að menn hafa fimm daga til að segja álit sitt á grundvallarbreytingum á stjórnarskránni. Enn les ég úr þessari umsögn, með leyfi virðulegs forseta:

„Er það afstaða laganefndar Lögmannafélags Íslands að framangreindar breytingar þurfi frekari athugunar við og leggst nefndin af þeim sökum gegn samþykkt frumvarpsins eins og það er lagt fyrir.“

Þetta getur ekki verið afdráttarlausara. Laganefnd Lögmannafélagsins kemst að þeirri niðurstöðu að þetta mál sé þannig úr garði gert að ekki sé hægt að samþykkja það. Það eigi að fara í frekari athugun, það eigi að fara í frekari vinnu, ekki vegna þess að ekki eigi að skoða þau mál sem um er að ræða heldur vegna þess að flausturslega sé að þessu staðið, ekki sé unnið að þessum málum með eðlilegum hætti. Þegar maður les það sem kemur fram í umsögn laganefndar Lögmannafélagsins er ómögulegt annað en taka undir þetta sjónarmið. Þetta er lögmætt og eðlilegt sjónarmið sem lýsir virðingu fyrir stjórnarskránni og lýsir vilja til þess að vinna vel að þessum málum þannig að við getum haft af þessu fullan sóma. Við sýnum stjórnarskránni okkar virðingu, þessu grundvallarplaggi sem við öll viljum virða og sem við þingmenn virðum alveg sérstaklega vegna þess að við sverjum eið að stjórnarskránni þegar við tökum sæti á Alþingi, eins og allir vita. Ég veit að það er örugglega fullur vilji til þess af hálfu allra þingmanna til að vanda vel til verka þegar kemur að breytingum á stjórnarskránni og við eigum að sýna þennan vilja okkar ótvírætt í verki með því að fresta afgreiðslu málsins. Við afgreiðum ekki stjórnarskrárbreytingar með flausturslegum hætti, sem enginn veit í raun og veru hvað þýða. Það liggur fyrir í veigamiklum atriðum í frumvarpinu að það er ágreiningur um hugtakanotkun, menn vita í raun og veru ekkert hvað verið er að tala um í sambandi við ýmsa þýðingarmikla þætti. Það er ávísun á lögsókn og málaferli sem mundu ekki aðeins skaða einstakar atvinnugreinar heldur þjóðfélag okkar og grafa undan virðingu okkar fyrir stjórnarskránni þegar í henni eru ákvæði sem menn vita í raun og veru ekki hvað þýða.

Þess vegna verð ég að segja, virðulegi forseti, að það undrar mig satt að segja mikið að menn skuli þá ekki vera sammála um að gera tilteknar breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar eins og við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum margoft hvatt til, en að öðru leyti að láta þetta mál bíða betri tíma. Það er þá hægt að fara í það, t.d. eftir kosningar, í sumar eða í haust, að ljúka málinu með þeim eðlilega hætti sem þar væri boðið upp á. Þá væru það breytingar á stjórnarskránni sem við afgreiddum einhvern tíma síðar á þessu ári á nýju þingi í stað þess að þær tækju gildi núna í maímánuði. Það getur ekki verið að eitthvað knýi svo á í þessum efnum að menn geti ekki fallist á þessa frómu ósk stjórnmálamanna og fleiri. Ég geri ráð fyrir að það sé erfitt fyrir stjórnarliðið, eins og það hefur talað, að fallast á það af því að þeim finnst eins og verið sé að taka of mikið tillit til sjónarmiða Sjálfstæðisflokksins. Ég vísa til almennra sjónarmiða allra helstu fræðimanna okkar og fleiri, t.d. Lögmannafélagsins sem hvetur til varkárni í þessum efnum.

Þetta er ekki bara ósk sem kemur frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, fræðasamfélaginu, Lögmannafélaginu, hagsmunaaðilum og þeim sem við þessi mál eiga að búa, þetta er líka sjónarmið sem var oft rætt á árinu 2007 í aðdraganda þeirrar umræðu sem þá fór fram um mögulegar breytingar á stjórnarskránni og ég rakti aðeins áðan. Þá kom mjög skýrt fram af hálfu tveggja mjög valinkunnra sómamanna úr hópi þáverandi stjórnarandstæðinga, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og Ögmundar Jónassonar, að menn ættu að gæta sín á því að láta ekki stjórnarskrárbreytingar fara fram í pólitískum ágreiningi, menn ættu að freista þess að reyna að ná meiri samstöðu. Það eru orð sem ber að taka tillit til og það var gert árið 2007 þegar menn ákváðu að hægja á þessari vinnu, ljúka henni ekki heldur freista þess að ná samkomulagi. Ég vek athygli á því að hér eru engir smákarlar á ferð. Hér eru nefnilega sjálfir guðfeður núverandi ríkisstjórnar, mennirnir sem hafa greint frá því að þeir hafi átt samræður um mögulega myndun ríkisstjórnar sem seinna var mynduð, í byrjun febrúarmánaðar. Hér eru því menn sem ég hefði talið að núverandi ríkisstjórn mundi hlusta á, hv. þm. Ögmund Jónasson og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem báðir hafa hvatt til þess að vandað væri til verka.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson segir t.d.:

„Það er grundvallaratriði að um stjórnskipan þjóðarinnar ríki stöðugleiki, sátt og festa.“ — Rétt eins og ég var að segja hér áðan. „Að svo miklu leyti sem íslensk lög kunna að vera óljós um eignarréttarlega stöðu náttúruauðlinda okkar er brýnt að stjórnarskrárgjafinn [þ.e. Alþingi] finni leið sem er til þess fallin að stuðla að stöðugleika en festi þó ekki í sessi kerfi sem mikið ósætti hefur verið um á meðal þjóðarinnar.“

Ég get tekið undir hvert einasta orð sem hv. þm. Ögmundur Jónasson segir í þessum efnum. Það frumvarp sem við fjöllum um nær ekki þessum markmiðum, það mun ekki gera það. Það er fullkomin óvissa um hugtakanotkun í þessu frumvarpi sem kemur glögglega fram hjá öllum þeim sem um það þurfa að véla og eiga hagsmuna að gæta í þessum efnum. Ég get bæði vísað til Landssambands smábátaeigenda og Landssambands íslenskra útvegsmanna og jafnframt til umsagnar Orkustofnunar sem væri fróðlegt að skoða, þó að ég hafi sennilega ekki tíma til þess að fara yfir hana, nema þá að ég taki til máls síðar í þessari umræðu. Það væri ákaflega fróðlegt að fara yfir umsögn Orkustofnunar í þessum málum, sem er mjög upplýsandi og varpar ljósi á þann vanda sem við erum í varðandi þetta mál vegna þess að hugtakanotkunin er óljós.

Sama má segja ef við skoðum ummæli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Frú forseti. Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál. Það var á þeim grundvelli sem stjórnarandstaðan lýsti því yfir að hún væri reiðubúin til að lengja þingið og reiðubúin til samstarfs við ríkisstjórnina um að reyna að ná sátt á sama grundvelli og allir flokkarnir höfðu áður náð sátt um í auðlindanefndinni.“

Síðan fjallar hv. þingmaður um málið, hann hefur auðvitað sína pólitísku sýn á þetta en leggur áherslu á það sem ég tel að sé grundvallaratriði í þessum efnum, að við eigum að taka okkur þann tíma sem við þurfum til þess að komast að niðurstöðu í málinu. Við höfum ekki fengið þann tíma, við höfum ekki nægan tíma til þess að gera það. Það sjá allir sem vilja skoða þessi mál af einhverri sanngirni að við þurfum meiri tíma. Við erum ekki að fjalla um nein smámál þegar kemur að stjórnarskránni almennt og í þessu frumvarpi sérstaklega.

Ég nefndi áðan að m.a. hefði komið fram í umsögn laganefndar Lögmannafélagsins að við værum að gera grundvallarbreytingar á stjórnarskránni. Og af því að hér eru komnir inn þingmenn sem ég hygg að hafi setið í sérnefndinni en hlustuðu væntanlega ekki á mál mitt (Gripið fram í: Jú, jú.) vakti ég athygli á því áðan að þessi nefnd hefði ætlað umsagnaraðilum fimm virka daga til þess að fjalla um málið, sem ekki er einu sinni boðið upp á þegar verið er að fjalla um litlar þingsályktunartillögur eða minni háttar breytingar í frumvarpsformi. Þá á allt annað við.

Þess vegna hvet ég til sátta í þessum efnum því að ég held að við viljum öll innst inni gera tilteknar breytingar á einstökum efnisatriðum. Ég er t.d. þeirrar skoðunar að við eigum að gera breytingar varðandi þau atriði sem lúta að 1. gr. í þessu frumvarpi þó að að ég sé mjög órólegur yfir þeim texta sem hérna er í ljósi þess að allir umsagnaraðilar sem fjalla um málið, útvegsmenn, Orkustofnun, hafa miklar áhyggjur í þessum efnum. (Gripið fram í: Alls ekki allir.) Víst er það svo. (Gripið fram í: Nei.) Ég skal ekki segja að svo sé á flokksþingi Framsóknarflokksins en að öðru leyti hafa þeir umsagnaraðilar sem ég hef vitnað til miklar áhyggjur af þessu.

Er ekki rétt að hafa varann á sér í þeim efnum? Getur hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir alveg fullyrt hvað hugtakið þjóðareign þýðir í þessu sambandi? Veit hv. þingmaður nákvæmlega til hvers er verið að vísa í þessu sambandi þegar rætt er um náttúruauðlindir? Umsagnaraðilum, sem eru engir aukvisar eða asnar, er það t.d. ekki ljóst. (Gripið fram í.) Þeim hefði kannski orðið það ljóst ef þessi mál hefðu fengið betri undirbúning og vandaðri málsmeðferð, en því er ekki til að dreifa hérna. Það er ekki ætlast til þess að menn hafi tækifæri til þess. Og finnst nú ekki hv. þingmanni, sem ég veit að virðir mjög hagsmuni grundvallaratvinnuvega eins og orkunýtingar og sjávarútvegs, að það sé ástæða til þess að taka eitthvert mark á þeim aðilum sem fjalla um þessa hluti? Þetta kemur mjög glögglega fram í málflutningi þeirra.

Ég sé t.d. að í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar, sem út af fyrir sig er jákvætt að sjá, er vikið að þessu máli og þar er reynt að slá allt í gadda og úrskurða um að annað þessara hugtaka sem ég gerði að umræðuefni, þ.e. þjóðareignarhugtakið, sé skýrt.

Með leyfi virðulegs forseta segir á bls. 2 í nefndaráliti meiri hlutans:

„Meiri hlutinn telur hugtakið þjóðareign skýrt og ítrekar að ákvæðinu“ — og þetta vil ég leggja áherslu á — „er ekki ætlað að hrófla við beinum eða óbeinum eignarréttindum sem menn hafa þegar öðlast á náttúruauðlindum.“

Með náttúruauðlindum eru menn væntanlega t.d. að tala um fiskinn í sjónum. Það vekur athygli mína að undir þetta plagg skrifar án fyrirvara hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, og Ellert B. Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sem mig minnir einhvern veginn að hafi talað dálítið öðruvísi um þau óbeinu eignarréttindi sem felast t.d. í fiskveiðiréttindum en til að mynda hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. Mér finnst að nú vanti ekkert á þetta plagg nema nafn Grétars Mars Jónssonar. Þessir þingmenn sem talað hafa út og suður þegar hefur komið að fiskveiðimálum … (Gripið fram í.) Bíddu nú við, hver á að hafa fiskveiðiréttinn? Þjóðin, segir hv. þm. Ellert B. Schram, ekki útgerðarmennirnir. En hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir segir okkur hins vegar alla daga, og hefur verið liðsmaður minn og margra annarra, að það sé eðlilegt að þessum fiskveiðiréttindum, sem hafa óbeint eignarréttargildi eins og komið hefur fram í máli allra fræðimanna sem um þessi mál hafa fjallað, mér vitanlega. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hefur allt aðra skoðun og allt aðra sýn á þessu máli. Og hér tölum við um grundvallaratriði. Hér tölum við um hugtakið þjóðareign. Hv. þingmaður segir í áliti sem hún skrifar undir sem formaður að þetta sé allt saman alveg skýrt, klárt og skorinort og menn þurfi ekki að efast um að þetta ákvæði breyti neinu, til að mynda varðandi þessi óbeinu eignarréttarákvæði, fiskveiðiréttindin sem tveir hv. þingmenn, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson og hv. þm. Ellert B. Schram, sem skrifa undir þetta mál, hafa andmælt alla daga og gert að stóru máli.

Ég vil því bara segja eins og er að þrátt fyrir að hér sé reynt að tala digurbarkalega í þessu nefndaráliti … (Gripið fram í: Ertu ekki ánægður með þetta?) Ja, ég veit það ekki, virðulegi forseti, hvort ég er mjög ánægður með þetta vegna þess að þetta er ákveðin pólitísk yfirlýsing. Ég veit ekki hvort það eigi að skilja hana þannig að hv. þm. Ellert B. Schram og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hafi horfið frá sínum gömlu sjónarmiðum varðandi fiskveiðiréttarmálin. Mér hefur að vísu ekki heyrst það þegar ég hef hlustað á hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson síðustu daga í kosningabaráttu sinni, þá hefur hann ekki slegið neitt af í þeim efnum. Hann hefur t.d. talað alveg þvert á hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur í þeim efnum og mun örugglega halda því áfram þann tæpa mánuð sem hann á eftir í kosningabaráttu og lengur ef hann hefur þess kost. Þess vegna verð ég að segja, af því að hv. þingmaður spurði hvort ég væri ekki ánægður með þetta: Ég er ekki mjög ánægður með þetta vegna þess að ég veit ekki hver merkingin er á bak við þetta. Það er í rauninni það sem ég tel vera alvarlegast þegar við ræðum um stjórnarskrárfrumvarpið að menn eru ekki vissir í sinni sök hvað þetta þýðir.

Ég hlustaði á athyglisverð orðaskipti hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar og Illuga Gunnarssonar um daginn þar sem hv. þm. Illugi Gunnarsson vakti athygli á því, á þýðingu þess að þegar við göngum frá breytingum á stjórnarskipunarlögunum okkar, reynum við að róa fyrir allar víkur og gæta þess að við skiljum eftir sem minnsta óvissu. Það er alveg rétt sem fram kom í ræðum þeirra beggja á þeim tíma, margt er óvissu undirorpið í mannanna verkum. En okkar verkefni í allri almennri löggjöf og alveg sérstaklega í stjórnarskipunarlögum er þó að reyna að lágmarka þá óvissu þannig að þeir sem búa við stjórnarskrá landsins, þ.e. þjóðin öll þurfi ekki að vera í neinum vafa um það hvað þessi orð þýða sem letruð eru gylltum stöfum í stjórnarskrá okkar. Það er erindi mitt í þessa umræðu, virðulegi forseti, að hvetja til þess að menn setjist niður, reyni að ná sátt og geri tilteknar breytingar á 79. gr., sem allir vita hvað þýðir. Að þau stjórnmálaöfl sem sitja á þingi að loknum kosningum taki síðan til við að finna lausn á þessu máli þannig að við þurfum ekki að afgreiða þetta mikilvæga mál í ágreiningi en reynum að hafa sama fyrirkomulag og allar aðrar þjóðir (Forseti hringir.) sem við berum okkur saman við og við höfum sjálf alltaf tíðkað í breytingum á stjórnarskránni.