136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:45]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lagði tvær spurningar fyrir hv. þingmann og hann valdi í ræðu sinni að flýja enn og aftur í formið í stað þess að takast á við þær spurningar efnislega því að hugtakið þjóðareign er í eðli sínu mjög skýrt. Það hefur verið rætt í ein 11 ár eða svo og gengur út á það að um er að ræða að auðlindir eru í ríkiseigu en einkenni þess er að þær auðlindir verða ekki látnar varanlega af hendi.

Hvað annað er það í þessu sem hv. þingmaður er andvígur en að hann þurfi að skoða þetta eða ræða eða vinna eitthvað frekar? Það er ákveðin aðferðafræði.

Hin spurningin: Hvað er efnislega að þeirri hugmynd sem hér liggur fyrir um að almenningur fái aukinn möguleika til að setja mál á dagskrá í þeim skilningi að setja í vald þjóðarinnar að taka um þau mál endanlegar ákvarðanir? (Forseti hringir.) Hvað er það efnislega í þessu sem hv. þingmaður er andvígur?