136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var dálítið athyglisverð ræða því að hv. þingmaður kaus að hafa þann háttinn á að handvelja úr umsögnum einstakra umsagnaraðila það sem henni hentaði hverju sinni. (LB: Það hefur …) Hv. þingmaður vísaði til tiltekinna umsagna um tiltekna efnisþætti þessa frumvarps, síðan kemur fram að í umsögnum sömu aðila er varað við öðrum þáttum í þessu frumvarpi. Út af fyrir sig geta einstakir umsagnaraðilar t.d. verið þeirrar skoðunar að það sé ekkert óskynsamlegt að hafa einhvers konar form á stjórnlagaþingi en verið síðan á móti öðrum þáttum frumvarpsins. Af því að hv. þingmaður nefndi Ragnhildi Helgadóttur prófessor kemur fram í umsögn hennar, með leyfi virðulegs forseta:

„Það er skoðun mín, að með því að naumur meiri hluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálanna. Þess má þá vænta að næsti meiri hluti geri þær breytingar sem honum hugnast án þess að takmarka sig við það sem næst almenn sátt um á þingi og þannig koll af kolli. Þannig getur stjórnarskráin orðin óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun.“

Svo skulum við taka stjórnlagaþingið sem er mikið uppáhald hv. þingmanns. Hvað gerist þar? Tiltekið frumvarp er lagt fram sem á sér fyrirmynd í kolli framsóknarmanna frá flokksþingi þeirra núna í janúar. Það er lagt þarna fram. Síðan kemur fram að þetta er 2 milljarða batterí og þá eru gerðar heilmiklar breytingar af hálfu stjórnarmeirihlutans og fylgifiska hans, meiri háttar breytingar á stjórnlagaþinginu og vísað til þess að um allar útfærslur varðandi það eigi að kveða á í lögum. Málið er allt saman mjög óljóst, alveg í uppnámi og enginn veit hvað þetta þýðir nema að það er búið að reyna að reikna sig niður í hálfan milljarð eða hvað þetta er í stað 2 milljarða, með öðrum orðum búið að gjörbreyta þessu fyrirbrigði í öllum meginatriðum og þannig á síðan að knýja þetta mál í gegn, algjörlega órætt í ljósi þeirra miklu breytinga sem hafa verið gerðar á fyrirkomulaginu.