136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það getur vel verið að ég hafi handvalið. En hver hefur ekki handvalið þegar horft er til þingmanna Sjálfstæðisflokksins, hvernig þeir hafa flutt ræður sínar hér? Ég hef fylgst með því hvernig þeir hafa handvalið úr umsögnum það sem er neikvætt. En sannleikurinn er sá að það er margt mjög jákvætt í þessum umsögnum.

Ragnhildur Helgadóttir sagði á fundinum að henni fyndist miður ef efnisatriðum stjórnarskrár yrði breytt í ósætti. Hún sagði að öðru máli gegndi um þá þætti frumvarpsins sem varða það að færa völd til þjóðarinnar. Hún er því að tala um að 1. gr. sé þess eðlis að ekki sé gott að breyta henni í ósætti en ekki aðrar greinar.

Hv. þingmaður gerir lítið úr því að nefndin kemur með breytingartillögur við stjórnlagaþingið sem þýðir að kostnaðurinn fer úr 2 milljörðum og niður í um 400 millj. kr. Það sýnir það eitt að honum hefur (Forseti hringir.) mislíkað að hafa ekki þau rök (Forseti hringir.) líka til þess að berjast gegn frumvarpinu, að (Forseti hringir.) það kosti 2 milljarða.