136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:08]
Horfa

Kristrún Heimisdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka góð viðbrögð við ábendingu minni og legg áherslu á nauðsyn þess að þingið ræði þetta einmitt til þess að viðhalda þjóðarsameiningu um þetta mál sem er miklu alvarlegra en svo að nokkur stjórnmálaflokkur hafi leyfi til að lyfta sér upp á því eða taka aðra niður á því.

Ég vil benda á að hér hafa orðið straumhvörf. Margir skildu ekki í umræðunni í vetur að ástæða þess að íslenska ríkisstjórnin ákvað að fara ekki með málið fyrir breska dómstóla var ekki sú að menn vildu það ekki. Það var ekki svo að menn væru ekki reiðubúnir að eyða í það miklu fé. Ástæðan var sú að breskir dómstólar eru þeim vanköntum búnir að veita ekki nægilegt endurskoðunarvald á ákvarðanir stjórnvalda þannig að ljóst var að ekki mundi nást fram sá árangur sem til stóð að ná.

Við verðum nú vitni að því hversu mikilvægt það er að hafa öfluga rannsóknarhefð og rannsóknarnefndir í þjóðþingum annarra ríkja. Það er breska þingið sem gerir það sem breskir dómstólar voru ófærir um að gera og því ber að fagna. Það er líka fordæmi fyrir íslenska þingið.