136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn þakka hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur fyrir þetta þarfa innlegg í umræðuna og góðar ábendingar. Við treystum því að forsetinn fylgi því eftir sem hér hefur verið rætt um og komi því til leiðar að við getum rætt þessa skýrslu með ítarlegum og góðum hætti á mánudaginn.

Svo að ég vísi í það sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi þá er auðvitað ástæða til að minna á að Ísland er enn þá undir hryðjuverkalögum í Bretlandi og í ljósi þess er ekki úr vegi að þeim skilaboðum verði þegar í stað komið til hæstv. utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, sem nú situr alþjóðlegan leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins, að þessi skýrsla sé komin út og þar komi ákveðin sjónarmið fram. Hann getur þá staðið fastur á sjónarmiðum Íslands í viðræðum við þá sem þar sitja og komið þeim sjónarmiðum skýrt á framfæri. Hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) hefur enda haft uppi stór orð um (Forseti hringir.) að hann muni standa fastur á málstað Íslands í samskiptum (Forseti hringir.) við Breta.