136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þá höldum við áfram umræðu um þetta mikilvæga mál eftir matarhlé og ég vil bjóða velkomna með mér í þingsal auk forseta hv. þingmenn Jón Magnússon og Valgerði Sverrisdóttur.

Virðulegur forseti. Í ljósi mikils ágreinings um þetta mál er eðlilegt að það taki langan tíma í umræðu Alþingis. Ég vil taka undir þær ítrekuðu óskir sem hafa komið fram sérstaklega hjá okkur sjálfstæðismönnum að forseti fresti þessari umræðu og að hafist verði handa við að taka á dagskrá þau mál sem eru mikilvæg vegna aðgerða fyrir heimilin í landinu og atvinnulífið í landinu.

Maður finnur fyrir því í allri umræðu úti í samfélaginu að þreytumerki eru á fólki og það er ákveðin vanvirðing sem Alþingi fær við það að halda sig svo lengi í umræðu um þau mál sem almenningi í landinu finnst ekki skipta grundvallarmáli fyrir afkomu sína næstu vikur og mánuði.

Það er ekki á ábyrgð okkar sjálfstæðismanna að þessi umræða dregst á langinn. Breytingar á stjórnarskrá krefjast ítarlegrar umræðu, krefjast mikillar yfirferðar. Um þetta mál er mikill ágreiningur meðal allra þeirra sem hafa um það fjallað og djúpstæður ágreiningur. Þess vegna er það tillaga okkar sjálfstæðismanna að hér verði farið að ræða önnur mál.

Við segjum að minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar virðist ekki vera tilbúin til þess og maður veltir því fyrir sér hver sé ástæða þess að þessi minnihlutastjórn studd af Framsóknarflokknum sé ekki tilbúin til að taka þessi brýnu mál á dagskrá, þau brýnu mál sem forsvarsmenn hennar tala um að þeir séu tilbúnir með og tala um að þeir vilji hafa sem forgangsmál og var lagt út frá strax í byrjun og við myndun þessarar ríkisstjórnar að væru þau mál sem sérstaklega ætti að taka tillit til. Er þetta út af því að ekki sé samstaða á ríkisstjórnarheimilinu um þessi mál, virðulegi forseti? Það er helst að maður láti sér detta það í hug. Þá vekur það spurningar um mögulegt framtíðarsamstarf þessara flokka eftir kosningar eins og þeir gefa út sjálfir. Þeir gefa það út sjálfir að þeir vilji helst sjá að hér geti orðið meirihlutastjórn á vinstri vængnum sem sé skipuð eingöngu þingmönnum Vinstri grænna og Samfylkingar.

Um alla þá umræðu sem hér fer fram um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands verð ég að segja, virðulegi forseti, að áhugaleysi fjölmiðla á þessari umræðu kemur mér á óvart. Í fjölmiðlum er ekki leiddur fram sá bullandi ágreiningur sem er um þetta mál og vegna þessa máls. Ekki er leidd fram sú djúpstæða gagnrýni sem margir af okkar helstu fræðimönnum á þessu sviði, mörg af mikilvægustu samtökum landsins hafa komið á framfæri í umsögnum sínum um þetta mál. Það má segja að fjölmiðlarnir skelli skollaeyrum við þessum bullandi ágreiningi. Ábyrgð fjölmiðla er gríðarlega mikilvæg þegar kemur að því að upplýsa þjóðina um umræðu. Þegar vitnað er til þess að mikill meiri hluti þjóðarinnar sé á bak við þá ákvörðun að fara í breytingar á stjórnarskránni þá er ég alveg jafnklár á því að mjög mikilvæg fyrir þjóðina sé upplýst og vel unnin umræða, gagnrýnin umræða til að þjóðin geti metið og valið þá kosti sem um er að ræða.

Það hefur verið sagt að við sjálfstæðismenn ættum að spara ræðutímann, að við ættum ekki að eyða öllum tíma í þetta mikilvæga mál. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði í umræðunni í gær að hún hefði ekki haldið það að sjálfstæðismenn mundu falla í sömu gryfjuna og Vinstri grænir hefðu gert í umræðu um mál, að hún hefði haft meiri trú á sjálfstæðismönnum en svo. Hér er um að ræða, virðulegi forseti, grundvallarmál sem þarf að gefa mikinn tíma í gagnrýni og málefnalega umræðu. Ekki er hægt að bera þetta mál saman við einhver dægurmál eða önnur mál sem oft hefur verið óþarflega lengd umræða um. Við erum að tala um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Öll þau vinnubrögð sem eru og hafa verið viðhöfð núna í þessu máli grafa undan virðingu fyrir stjórnarskránni. Þau grafa undan virðingu fyrir Alþingi. Það er kannski ekki þannig að það sé úr háum söðli að detta þegar kemur að virðingu Alþingis í samfélaginu. Ég held að sú röð sem hefur verið á málum inni í þingi núna eigi ekki þátt í að efla virðingu Alþingis, þ.e. þær áherslur sem núverandi ríkisstjórn hefur sett fyrir þeim málum sem hún vill að hér séu rædd og afgreidd. Eða hvar eru öll þessi mál sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að heita þjóðinni nú um nokkurra vikna skeið? Hvernig væri nú að þau kæmu fram með þau mál þannig að við gætum hafist handa við að ljúka þeim og gætum síðan farið á vettvang þjóðarinnar, farið út á meðal fólksins til þess að gera grein fyrir þeim málum sem við ætlum að standa fyrir eftir kosningar. Kannski vilja þessir minnihlutastjórnarflokkar hér ekki fara í þá umræðu. Þeim finnst kannski betra að halda því sem lengst frá þjóðinni hvað þeir hugsa sér eftir kosningar.

Það er skylda þingmanna í svo viðamiklu máli að gera grein fyrir skoðunum sínum. Það er sem betur fer allt tekið upp sem sagt er á hinu háa Alþingi og þær upptökur eru geymdar en ekki gleymdar. Það er alveg öruggt mál að hér er um ákveðin tímamót að ræða í afgreiðslu breytinga á stjórnarskrá landsins og það verður horft til þessarar umræðu síðar meir. En hvað knýr þessa vinstri flokka áfram í þessari umræðu? Ég vil vitna í Þorstein Pálsson, ritstjóra Fréttablaðsins, fyrrverandi ráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins þegar hann segir í leiðara Fréttablaðsins föstudaginn 3. apríl, með leyfi forseta:

„Talsmenn ríkisstjórnarinnar segja að stjórnarskrárbreytingar þær sem nú er verið að gera séu svar við ákalli fólksins, fyrir fólkið og fólksins vegna. Að því leyti hafa þeir rétt fyrir sér að skoðanakannanir gefa til kynna að meiri hluti kjósenda sé þeim fylgjandi.

Á hinn bóginn liggur fyrir að meiri hluti allra þeirra sérfræðinga sem stjórnarskrárnefnd þingsins hefur kallað til varar við því flaustri sem ríkisstjórnin hefur á breytingunum. Sumir vilja ekki segja álit sitt vegna óvandaðra vinnubragða. Aðrir benda á hættuna sem fylgir óskýrum stjórnarskrárákvæðum. Loks eru þeir sem leggja áherslu á að reyna eigi til þrautar að ná víðtækri samstöðu þegar sjálf stjórnarskráin á í hlut.

Umræðan á Alþingi snýst ekki um málefnaleg rök og gagnrök af því tagi sem lesa má í umsögnum um stjórnarskrárfrumvarpið. Hún fer alfarið eftir forskriftarbók lýðskrumsins: Við erum með fólkinu. Þeir sem ekki eru sammála okkur eru á móti fólkinu. Röksemdafærslur lýðskrumsins hafa orðið ofan á. Stjórnarandstaðan hefur orðið undir í þeirri orðræðu.“

Ég vil minna á það, virðulegi forseti, að fáir fyrrverandi þingmenn og ráðherrar hafa meiri reynslu til að fjalla um stjórnarskrármál og hafa fjallað um stjórnarskrármál auk þess sem Þorsteinn Pálsson er mjög kunnugur stjórnarskránni í gegnum störf sín í gegnum tíðina.

Það er alveg rétt að í skoðanakönnunum, eins og fram hefur komið, er krafa almennings, ef má túlka niðurstöður skoðanakannana þannig að um kröfur sé að ræða, að farið verði í svokallað stjórnlagaþing. En það er ekki mikil vissa eða trú meðal margra hér á Alþingi og þá á ég við meðal margra innan stjórnarflokkanna jafnt sem innan raða okkar sjálfstæðismanna sem hafa trú á því að sú útfærsla sem hér er sett fram sé sú besta og það er gagnrýnt hvað lítill tími er gefinn þessu til undirbúnings. En ég held að það liggi í augum uppi að stuðningur vinstri flokkanna við Framsókn í þessu máli er fenginn til að tryggja stuðning Framsóknarflokksins meðal annars við þær breytingar sem þeir flokkar leggja áherslu á í þessu máli og öðrum málum sem þeir eru að reyna að koma í gegn.

Eins og ég kom inn á áðan þá hefur almenningi ekki verið gerð grein fyrir öllum hliðum málsins. Málefnalegri gagnrýni sérfræðinga hefur ekki verið haldið á lofti. Fjölmiðlar hafa ekki gert því máli skil. Það er þannig að fjölmiðlar velja það mjög hvað birt er af því sem sagt er á Alþingi. Einhvern veginn er það þannig að sú umræða sem fer hér fram um þann grundvöll sem stjórnarskráin er í okkar samfélagi fær þann stimpil að vera einhvers konar málþóf af hálfu sjálfstæðismanna í þessu mikilvæga máli. Ég er alveg viss um að meginþorri almennings áttar sig ekki á mikilvægi málsins, áttar sig ekki á því hvað um ræðir í raun og veru.

Flestir eru sammála um að endurskoða eigi stjórnarskrána. Við sjálfstæðismenn erum tilbúnir að styðja það og við höfum verið tilbúnir að styðja hér leiðir til að einfalda þá vinnu þegar fram í sækir. En þessi upplýsandi umræða sem ég nefndi áðan þarf að fara fram og það þarf meðal annars að gera grein fyrir þeim kostnaði sem hlutir eins og stjórnlagaþing kunna að hafa í för með sér. Í minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að fjármálaráðuneytið árétti að erfitt sé að meta með nákvæmni kostnað við stjórnlagaþing í ljósi þeirra breyttu viðhorfa um tilhögun þinghaldsins sem fram koma í nefndarálitinu og að fyrir öllum kostnaði verði að gefa sér nánari forsendur. Fyrir utan áframhaldandi óvissu um starfstíma þingsins er óvissa um samkomutíma þess og óvissan eykst um launakostnað þingfulltrúa. Það er ekki ljóst hversu oft þingið mun koma saman og hversu lengi það mun hittast hverju sinni. Heildarkostnaður við stjórnlagaþingið ræðst talsvert af því hversu langur samkomutími þingsins verður því starfsfólk og þingfulltrúar verða á launum þann tíma.

Hvað verður nú ef þetta stjórnlagaþing yrði sett á, virðulegi forseti? Hvað gerist ef það hefur ekki lokið störfum á þeim tíma sem því er settur? Ef það verður ekki niðurstaða í málinu? Ef það verður ekki komið með niðurstöðu og þarf kannski annan eins tíma til að vinna úr sínum málum?

Fjármálaráðuneytið áréttar enn fremur í umsögn sinni að ekki hafi verið gert ráð fyrir þessum útgjöldum í fjárlögum eða áætlunum um ríkisútgjöld til næstu fjögurra ára. Við erum að tala um kostnað sem mun nema hundruðum milljóna í það minnsta og í það mesta jafnvel í milljörðum talið eða vel á annan milljarð.

Afstaða okkar sjálfstæðismanna er skýr í þessu máli, virðulegi forseti. Við erum tilbúin til þess að fara í endurskoðun á stjórnarskránni en við viljum standa vörð um stjórnarskrána og við viljum vanda vinnubrögðin. Við viljum sýna stjórnarskránni þá virðingu sem henni ber í allri umræðu. Stjórnarskráin er jú grunnur að því umhverfi sem við lifum og störfum í.

Vinnubrögð vinstri manna sem viðhöfð eru í þessu máli á vegum Alþingis útiloka kjörna fulltrúa fjölmenns meiri hluta þjóðarinnar frá þessari vinnu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur að litlu leyti komið að undirbúningi þessara breytinga. Þingmenn undirrita drengskaparheit að stjórnarskránni og heita því að verja hana en greinir á um það að í þessu frumvarpi séu þingmenn að afsala sér skyldum sínum, stjórnarskrárvaldinu.

Þetta er grundvallarmál fyrir okkur sjálfstæðismenn og við leggjum mikla áherslu á að tekin verði upp vandaðri vinnubrögð í þessu máli og tekin upp vinnubrögð í þeim anda sem viðhöfð hafa verið við breytingar á stjórnarskránni á þeim tímum sem það hefur verið gert sem fyrst og fremst snúa að víðtækri sátt í samfélaginu, víðtækri sátt á Alþingi, tilraunum til að ná sem víðtækastri sátt um breytingar sem verið er að gera á grundvelli okkar samfélags.

En það er einhvern veginn eins og engu tauti verði við menn komið í þessu máli. Framsókn lofaði stuðningi við minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar til þess að afgreiða brýn mál. Til þess að afgreiða brýn mál, virðulegi forseti. Brýn mál sem brenna á samfélaginu, brenna á heimilunum, brenna á fyrirtækjunum. Við bíðum enn eftir þeim málum.

Framsókn vildi ljúka störfum þingsins 12. mars og við erum stödd hér í dag, er ekki kominn 4. apríl? Og það er alveg óvíst hvort sá tími sem eftir er fram að boðuðum kosningum 25. apríl dugi okkur til þess að ljúka þessu máli. Vegna þess að það liggur alveg fyrir að við sjálfstæðismenn munum ekki láta valta yfir okkur og þjóðina í þessu máli. En við biðjum um það á sama tíma að þetta mál sé geymt og forgangsraðað sé í þágu þjóðarinnar. Forgangsraðað verði í þágu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu í þeim málum sem hér er verið að ræða. Við erum tilbúin til þess hvenær sem er sólarhringsins. Áhrif framsóknarmanna virðast engin í ríkisstjórnarsamstarfinu en þeir virðast vera að vakna upp núna á síðustu metrunum og leggja mikla áherslu á að koma í gegn þessum breytingum.

Það eru söguleg tíðindi þegar keyra á í gegn á svo skömmum tíma breytingar á stjórnarskrá sem eru í svo mikilli andstöðu við svo marga eins og hér er. Það eru söguleg tíðindi. Það eru áratugir síðan ekki var víðtækari sátt um svona breytingar. Ekki er hægt að segja annað en að vinnubrögðin í þessu brjóti í bága við allar vinnureglur og allar hefðir, ekki aðeins hér á landi heldur hefðir og reynslu sem við þekkjum frá öðrum þjóðum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Segja má að öll skynsemi sem menn hafa talið að þyrfti að vera í umfjöllun um þessi mál sé lögð til hliðar og meginreglan að leita sátta sé eyðilögð með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, eða hvað?

Ég ætla að gefa mér svolítinn tíma, virðulegi forseti, til að fara yfir þá gagnrýni og umsagnir sem nefndinni bárust við vinnslu á þessu máli. Ég vil byrja á að vitna aftur í ritstjóra Fréttablaðsins, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, Þorstein Pálsson, þar sem hann segir:

„Sá háttur að umsagnir séu veittar um lagafrumvörp er í þágu fólksins. Hann er málefnaleg vörn þess gegn ofríki framkvæmdarvaldsins. Hefði ríkisstjórnin hlustað á þær athugasemdir sem Alþingi hafa borist er eins víst að ná hefði mátt sátt um bæði vandaðri og skjótvirkari framgang stjórnarskrárbreytinga en raun verður á.

Málamiðlun hefði falist í því að ákveða nú að stjórnarskrárbreytingar tækju gildi með samþykki þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu. Alþingi fengi þá allan næsta vetur til að ljúka vandaðri endurskoðun sem síðan yrði borin undir þjóðaratkvæði samhliða sveitarstjórnarkosningum strax næsta vor.

Í beinu framhaldi af því fengi þjóðin að kjósa fulltrúa á löggjafarsamkomuna á grundvelli nýrra stjórnarskrárákvæða og eftir atvikum að kjósa framkvæmdarvaldið beint í sérstökum kosningum. Vönduð vinnubrögð hefðu tryggt fólkinu þegar á næsta ári nýja stjórnarskrá og valdhafa með umboð á nýjum grundvelli. Málefnaleg sjónarmið hafa nú vikið fyrir textabók lýðskrumsins í þessu mikilvæga máli.“

Hér var lesið úr Fréttablaðinu, með leyfi virðulegs forseta.

Þá að umsögnunum sem eru fjölmargar og hafa verið notaðar heilmikið í þessari umræðu. Ég ætla að gefa mér, virðulegi forseti, eins og ég segi aðeins lengri tíma til að slíta ekki úr samhengi innihald þeirra, eins og hefur verið notað hér nokkuð í umræðunni. Ég ætla að byrja á að lesa umsögn sem kom frá laganefnd Lögmannafélags Íslands, með leyfi forseta:

„Laganefnd telur ákveðna þversögn felast í því að gera efnisbreytingar á stjórnarskránni og á sama tíma koma á fót stjórnlagaþingi sem á að semja nýja stjórnarskrá. Er vandséð að framangreindar breytingar geti haft það mikið gildi á meðan stjórnlagaþing er að störfum en samkvæmt frumvarpinu á stjórnlagaþing að ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011.“ — Þessi tímasetning hefur breyst. — „Ljóst er að sá tími er í sjálfu sér ekki mjög langur miðað við efni ákvæðanna sem um ræðir.

Að mati laganefndar eru þær breytingar á stjórnarskránni sem boðaðar eru með frumvarpinu í raun grundvallarbreytingar. Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingu er að ræða. Er það afstaða laganefndar að framangreindar breytingar þurfi frekari athugunar við og leggst nefndin af þeim sökum gegn samþykkt frumvarpsins eins og það er lagt fyrir.“

Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hver samviska lögfræðinga í liði stjórnarliðsins er þegar kollegar þeirra og það fólk sem lögfræðingar landsins velja sér til þess að vera í stofnunum samtaka sinna til að fjalla um mikilvæg mál eins og þetta eru með svona niðurstöðu, en lögfræðingar þeirra sem eru nokkrir innan borðs í stjórnarflokkunum ákveða að hunsa.

Og ég held áfram, með leyfi virðulegs forseta, og kem næst að umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna:

„Breyting á stjórnarskránni krefst vandaðs undirbúnings og því teljum við rétt að lengri tími verði tekinn til að undirbúa þær en hér er gert ráð fyrir. … Við leggjumst alfarið gegn því að þær breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins nái fram að ganga.“

Þeir vitna síðan í meðfylgjandi álit dr. Guðrúnar Gauksdóttur sem vert sé að vekja sérstaka athygli á.

Í umsögn Ragnhildar Helgadóttur sem ég les hér úr, með leyfi forseta, og hefur verið vitnað nokkuð í í þessari umræðu en hún hefur sérhæft sig í stjórnskipunarrétti, kemur m.a. þetta fram:

„Stjórnarskrár eru ólíkar öðrum lögum að setningarhætti og vegna þess að þær eiga að leggja stórar línur og vera hafnar yfir pólitískar deilur á hverjum tíma. Vegna þessa eðlis stjórnarskráa breytast þær oft hægt, eru gjarnan gamlar í ríkjum með gamla lýðræðishefð og breytingar á þeim tiltölulega eru sjaldgæfar. Á grundvelli alls þessa er það skoðun mín að það væri afar óheppilegt ef nú yrði vikið frá þeirri hefð að breið samstaða allra flokka sé um breytingar á stjórnarskrá. Eins og menn vita hafa einungis tvisvar, frá fullveldi 1918, verið gerðar breytingar á stjórnarskrá í andstöðu við heilan stjórnmálaflokk og í bæði skiptin snerust breytingarnar um kjördæmaskipan og kosningar og vörðuðu beint hagsmuni viðkomandi flokks. Síðasta dæmið um þetta var 1959.“ — Fyrir 50 árum. — „Það er skoðun mín að með því að naumur meiri hluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálanna. Þess má vænta að næsti meiri hluti geri þær breytingar sem honum hugnast án þess að takmarka sig við það sem næst almenn sátt um á þingi og þannig koll af kolli. Þannig getur stjórnarskráin orðið óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun.

Sé það vilji Alþingis að samþykkja, þrátt fyrir það fordæmi sem þannig skapast, breytingar á stjórnarskránni án þess að samstaða hafi náðst um þær legg ég til að breytingarnar verði takmarkaðar við ákvæðin um breytingar á stjórnarskránni: 2. og eftir atvikum 4. gr. þess frumvarps sem nú liggur fyrir. Það má færa að því sterk rök að það sé í samræmi við lýðræðishugmyndir og lýðræðishefðir að færa ákvörðunarvald um stjórnarskrárbreytingar til kjósenda og að því sé ásættanlegt að einstakir stjórnmálaflokkar séu mótfallnir breytingunum. Hugmyndin er þá sú að það sé í lagi að ganga fram hjá fulltrúum stórs hluta kjósenda þegar málinu sé vísað til þeirra sjálfra. Ég mæli því eindregið með því að ákvæði 1. og 3. gr. frumvarpsins, hversu æskileg sem þau eru, verði ekki tekin í stjórnskipunarlög núna nema um þau náist sátt allra flokka heldur eingöngu fjallað um breytingar á stjórnarskrá almennt og eftir atvikum um heildarskoðun og stjórnlagaþing. Að öðrum kosti er opnað fyrir pólitískan leik með stjórnarskrána, sem ekki hefur tíðkast áður á Íslandi, og ástæða er til að vara við.“

Ragnhildur Helgadóttir segir síðan í samantekt sinni, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að mörg ákvæði frumvarpsins feli í sér æskilegar breytingar legg ég til að ekki verði gerðar aðrar breytingar á stjórnarskránni nú en þær sem snúa að því hvernig henni skuli breyt, nema náist sátt um það milli allra flokka. Ég fagna ákvæði um að héðan í frá þurfi þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá.

Hvað snertir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, þá kann hún að vera nauðsynleg til að fá fram umræðu um stjórnskipunina en hún er að mínu áliti ekki nauðsynleg vegna efnis stjórnarskrárinnar. Þær breytingar sem þarf að gera nú eru síst meiri en breytingar sem hafa hingað til hafa verið gerðar á stjórnarskránni. Það er skoðun mín að vegna þess óróa sem ríkir í stjórnmálum og vegna þess að tilgangurinn er umræða en ekki aðkallandi breytingar sé ekki æskilegt að boða til stjórnlagaþings eftir næstu kosningar, heldur eigi Alþingi að vinna tillögu um aðkallandi breytingar á stjórnarskrá eftir næstu kosningar og leggja svo tillögur sínar undir þjóðaratkvæði í samræmi við tillögur frumvarpsins þar um. Ég bendi á nokkur umhugsunaratriði varðandi útfærslu á hugmyndinni um stjórnlagaþing en tek ekki afstöðu til hennar í smáatriðum.“

Ég held áfram að vitna í umsagnir. Davíð Þorláksson lögfræðingur skrifar nefndinni, með leyfi forseta:

„Í ljósi alls þess sem framar greinir tel ég að það væri verulega misráðið af stjórnarskrárgjafanum að binda 1. gr. frumvarpsins í stjórnarskrána. Það er til þess fallið að draga úr þýðingu stjórnarskrárinnar að setja í hana marklaus ákvæði sem þetta. Það er líka tímabært að komið sé hreint fram við þjóðina með því að staðfesta endanlega að þjóð getur ekki átt eignir. Eðlilegast væri af Alþingi að bíða með allar efnislegar breytingar á stjórnarskránni þar til niðurstaða stjórnlagaþings liggur fyrir.“

Þá komum við að umsögn frá Landvernd sem gerir athugasemdir við orðaval. Síðan er umsögn frá Davíð Þór Björgvinssyni sem er dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og prófessor við lagadeild HR. Hann gagnrýnir verulega þá málsmeðferð hversu stuttur tími er gefinn í svo mikilvægu máli en honum barst tölvupóstur þann 15. mars þar sem honum var gefinn kostur á að veita umsögn um frumvarpið til 20. mars og skila þá inn. Hann segir, með leyfi forseta:

„Þennan frest verður að telja fremur skamman þegar umfang málsins er haft í huga. Hér gefst því aðeins kostur á mjög almennum athugasemdum. Umsögnin getur þar með á engan hátt talist tæmandi og vafalítið mundi nákvæmari skoðun gefa tilefni til fleiri og ef til vill gagnlegri athugasemda en hér eru gerðar.“

Sjómannasamband Íslands hefur efasemdir um að ákveðnar greinar frumvarpsins skili tilætluðum árangri.

Kem ég þá að umsögn Ragnars Árnasonar og Birgis Þórs Runólfssonar við hagfræðideild Háskóla Íslands en þeir segja m.a., með leyfi forseta:

„Skerðing eignarréttarins er ávallt efnahagslega skaðleg. Hversu mikill skaðinn er fer eftir aðstæðum. … Skaðinn er jafnframt þeim mun meiri sem skerðing eignarréttarins er meiri. Spurningin er því ekki um hvort tiltekin skerðing eignarréttarins valdi efnahagslegu tjóni heldur aðeins hversu mikið það tjón sé.

Ljóst er að sú þjóðnýting sem felst í lögfestingu umrædds ákvæðis um þjóðareign á náttúruauðlindum takmarkar svigrúm einkaframtaksins verulega. Það vinnur gegn þjóðhagslegri hagkvæmni og felur í sér umtalsvert virðingarleysi gagnvart fjárfestingum einkaaðila … og það rýrir tækifæri til eignavinninga …“

Ég vil að lokum fara yfir minnisblað um stjórnarskrárbreytingu sem nefndinni barst frá þeim manni sem kannski helst hefur verið leitað til til að afla álits á málefnum þegar kemur að umfjöllun um lögfræðileg atriði og hann hefur verið örugglega kennari margra þeirra lögfræðinga sem hér eru á þingi, Sigurður Líndal. Hann segir m.a., með leyfi forseta:

„Ég tel að skoða þyrfti 1. gr. frumvarpsins betur vegna óljósrar merkingar orða og hugtaka sem þar eru notuð. Í orðið þjóðareign er ekki hægt að leggja hefðbundna merkingu eignarréttarins þótt þess hafi margsinnis gætt í umræðu. Almenn merking orðsins eign er hins vegar svo margþætt að hana er ekki unnt að leggja til grundvallar í rökræðu. Það hefur þó óspart verið notað í kappræðu sem Íslendingar stunda gjarnan, en er þar til truflunar og ýfir upp deilur.

Reyndar er álitamál hvort nýtt eignarréttarhugtak hafi verið mótað. Mér virðist sem verið sé að setja eins konar stjórnarskrárfesta stofnanaumgerð um auðlindir sem eru ekki í einkaeign og stjórnarskrárvernduð atvinnuréttindi sem tengjast auðlindanýtingu. Hér er nærtækust samlíking við sjóði eða stofnanir — oft kallaðar sjálfseignarstofnanir …

Einhver stjórnskipunarbundin umgerð af þessu tagi um auðlindir utan eignarráða fengi væntanlega staðist og þá verða alþingismenn að gera það upp við sig hversu langt þeir telja rétt að binda hendur löggjafans.“

Hann segir hér áfram, með leyfi forseta:

„Enn óljósara og vandmeðfarnara er þó orðalagið í 3.–4. mgr. þar sem segir að allar náttúruauðlindir beri að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir …“

Hann segir síðan, með leyfi forseta:

„Ég tel nauðsynlegt að huga vandlega að þessu og því rétt að fella brott 1. gr. þannig að betra tóm gefist til að huga að því hvernig slíkum yfirlýsingum verði fyrir komið ef á annað borð þykir rétt að hafa slíkt í stjórnarskrá.“

Mig langar til að ljúka þessum tilvitnunum mínum í útvarpsviðtal við hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur þar sem hún segist almennt vera þeirrar skoðunar að um breytingar á stjórnarskránni eða við skoðun á stjórnarskránni eigi að ná víðtækri sátt og ekki eigi að hlaupa til breytinga á stjórnarskrá. Slíkt þurfi að ígrunda vel og góðan undirbúning þurfi til þess. Hún bætti við: „Alveg eins og útrásaræðið var æði og peningaæðið var æði, þá er kannski komið nýtt æði.“ Þetta „nýja æði“ felist í því að boða í skyndi til stjórnlagaþings í stað þess að leggja fé í rannsóknir á stjórnarskránni.

Þetta sjónarmið fellur að þeirri almennu skoðun þeirra sem ræða um stjórnarskrármál á fræðilegum grunni að það beri að standa þannig að öllum málum varðandi stjórnarskrána, að ekki sé verið að skapa fleiri lögfræðileg vandamál með breytingum eða óljósum skýringum á efni einstakra ákvæða. Hvert orð þurfi í raun að vega og meta og skýra samhengi þeirra með skýrum rökum á fræðilegum grunni. Öll slík meginsjónarmið voru höfð að engu við gerð og afgreiðslu þessa frumvarps. Núverandi ríkisstjórn kallaði til þriggja manna hóp á eigin vegum til að vinna að þessu máli. Sjálfstæðisflokknum var ekki gefinn kostur á að tilnefna mann í hópinn og því ekki gefinn kostur á að taka þátt í því að semja upphaflegu drögin. Þegar hópurinn hafði unnið saman skamma hríð var lagt fram blað á fundi formanna allra flokka með hugmyndum hans, án þess að óskað væri eftir viðbrögðum Sjálfstæðisflokksins. Þessar tillögur voru ekki lengur óbreyttar heldur var þeim enn breytt nokkrum dögum síðar án þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefði færi á því að koma þar að máli. Enn var málinu breytt í þriðja sinn án nokkurs samráðs við Sjálfstæðisflokkinn.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef komið inn á áður styðjum við breytingar á stjórnarskránni og á einhverjum þeim ákvæðum sem fjallað hefur verið um. En eins og ég hef sagt virðist það vera að þeir sem standa að þessum breytingum séu í raun ekki sammála innbyrðis heldur og við séum nánast að upplifa pólitísk hrossakaup með sjálfa stjórnarskrána, með sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins. Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort hægt er að komast neðar í virðingarstiga Alþingis en þegar menn eru farnir að stunda pólitísk hrossakaup um að koma málum í gegn með sjálfa stjórnarskrána. Er hægt að sýna af sér meira ábyrgðarleysi? Engin sátt er t.d. um hvað felst í hugtakinu þjóðareign þó að fullyrt hafi verið að það sé alveg skýrt, þá kemur það fram í umsögnum þeirra sem hafa um þetta rætt að það sé alls ekki svo.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði í gær óljóst í skýringum sínum að þetta þýddi „væntanlega“, það voru þær skýringar sem hann gaf á því. Hann sagði áðan í ræðu sinni að ljóst væri nú að allar þessar ræður sjálfstæðismanna væru til komnar til að stöðva eign almennings á auðlindunum og rétt almennings til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ekki rétt og þetta veit hv. þm. Lúðvík Bergvinsson.

Það sem efnislega kemur fram í umsögnum þeirra sem hafa fjallað um þetta mál lýsir djúpstæðum ágreiningi. Í þessum þætti eru breytingar sem gætu verið okkur sjálfstæðismönnum í sjálfu sér hugleiknar, þ.e. þeim sem hafa ekki aðild að Evrópusambandinu efst á óskalistanum. Ef ég vitna aftur í Þorstein Pálsson segir hann í umræddum leiðara, með leyfi forseta:

„Mesta athygli vekur þó að ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan hafa með öllu útilokað að setja ákvæði í stjórnarskrána sem heimilar aðild að Evrópusambandinu. Þvert á móti hefur verið bent á að auðlindaákvæðið geti verið þrándur í götu aðildar.“

Áhrifin af þessu geta verið nokkuð víðtæk og líka fyrir þá flokka sem hafa það helst á stefnuskrá sinni að ganga í Evrópusambandið.

Ég hef lýst meðferð málsins. Hún hefur verið fyrir neðan allar hellur og vinnubrögð þessarar vinstri stjórnar eru í raun alveg ótrúleg og þau orð hv. formanns nefndarinnar, Valgerðar Sverrisdóttur, um að tími sátta væri einfaldlega liðinn er með ólíkindum. Hver er sá tími sem gefinn hefur verið til að reyna að leita sátta í þessu máli? Hann telst í nokkrum dögum, virðulegi forseti. Hann telst ekki í vikum eða mánuðum eins og eðlilegt getur talist þegar um breytingar á stjórnarskrá landsins er að ræða.

Margt hefur breyst í samfélagi okkar og annarra þjóða á undanförnum mánuðum og heimsins alls. En þær breytingar sem hafa orðið hér eru ekki stjórnarskránni að kenna, virðulegi forseti. Þær hafa ekkert með stjórnarskrána að gera. Þá ítreka ég það sem ég hef sagt áður að ég skora á ríkisstjórnarflokkana, ég skora á forustumenn þeirra og ég skora á forseta þingsins að gera nú hlé á þessum umræðum og taka á dagskrá þau mál sem eru brýn fyrir samfélagið, taka á dagskrá þau mál sem brenna á fólkinu í landinu, þau mál sem brenna á atvinnulífinu, þau mál sem munu eyða atvinnuleysi og koma heimilunum til bjargar.