136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:26]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kallaði eftir málefnalegri umræðu en flutti svo mál sitt eins og hann gerði og ég hlýddi á. Ég tel mikilvægt að rifja upp og nefna það við hv. þingmann að það frumvarp sem við ræðum er fjórar greinar. Í 1. gr. er kveðið á um að náttúruauðlindir skulu vera í þjóðareign, sem er í takt við það frumvarp sem formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde, flutti fyrir tveimur árum. Ég gef mér það að ekki hafi orðið svo stórkostleg breyting í þingflokki Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2007 til ársins 2009 að um þetta ákvæði ætti auðveldlega að geta náðst sátt.

Í annan stað er verið að tala um aðferðafræði við að breyta stjórnarskránni og hefur komið fram í umræðunni að um það er sátt.

Í þriðja lagi er lagt til að almenningi verði gefinn aukinn réttur á að knýja á um þjóðaratkvæðagreiðslur og ákveðin aðferðafræði sett upp við það. Varla er það tilefni allrar þeirrar umræðu sem hér fer fram. Ég vildi nefna þessar þrjár greinar vegna þess að hv. þingmaður kom aldrei inn á efnislega umfjöllun um þær greinar en kallaði þó eftir málefnalegri umræðu um frumvarpið. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað er það efnislega í þessum þremur greinum — og þá einkanlega tveimur, þ.e. um þjóðareignina sem er í takt við það frumvarp sem formaður Sjálfstæðisflokksins flutti fyrir tveimur árum og það að almenningur fái aukinn rétt til að knýja á um þjóðaratkvæðagreiðslu — sem gerir það að verkum að 26 manna þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggst í það málþóf sem hann gerir á hinu háa Alþingi?