136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar menn efna til málefnalegrar umræðu um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands heitir það að menn séu í fýlu, það eru kveðjurnar sem við fáum frá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ríkisstjórnarflokkum. Það eru kveðjurnar, við erum í fýlu.

Nei, virðulegi forseti, við erum ekki í fýlu. Við erum að efna hér til málefnalegrar umræðu um breytingar á stjórnarskrá landsins. Ég sagði áðan að það væri alveg eins víst að Sjálfstæðisflokkurinn gæti staðið á bak við einhverjar af þeim breytingum sem lagðar eru til en það hefur ekki náðst að ræða þetta mál að fullu. Virðulegur formaður nefndarinnar, Valgerður Sverrisdóttir, tók málið út úr nefnd í algjörri andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn og við höfum upplifað þess háttar vinnubrögð, virðulegi forseti, hér á síðustu dögum af hálfu vinstri flokkanna. Við höfum upplifað þetta í nefndastarfi líka, t.d. var verið að ræða mikilvæg mál í viðskiptanefnd og gestum sem voru komnir á fund nefndarinnar og áttu ósvarað nokkrum spurningum nefndarmanna var hreinlega vísað út og þeim sagt að þessum dagskrárlið væri lokið og málið afgreitt út úr nefndinni.

Þessi vinnubrögð eru fordæmalaus, virðulegi forseti. Með þá gagnrýni sem hér hefur verið farið yfir skil ég hreinlega ekki hvers vegna þessir virðulegu þingmenn og hæstv. ríkisstjórn leggja svona þunga áherslu á þetta mál. Hvað er eiginlega á ferðinni? Ég skora á hæstv. forsætisráðherra, sem kominn er í salinn, að leggja okkur lið í því að stöðva þessa umræðu. Við skulum fresta þessari umræðu. Við erum tilbúin að taka þátt í henni, þess vegna fram á síðasta dag ef á þarf að halda, en við skulum leggjast á eitt um að koma málum á dagskrá sem skipta heimilin og fyrirtækin máli við þær aðstæður sem eru í samfélagi okkar. Við sjálfstæðismenn erum (Forseti hringir.) tilbúnir til að vinna næturlangt í þeim málum. (Forseti hringir.) Við skulum vinna með ykkur alla helgina við að koma þeim í verk.