136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:12]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði það í ræðu minni að fram til þessa hefði engin tilraun verið gerð til þess að hafa samvinnu eða samráð við aðila í samfélaginu, við þjóðina við gerð breytinga á þeirri stjórnarskrá sem liggur fyrir nú. Það hefur ekkert samráð verið haft við fólk fyrir utan þingið. Það var ráðgefandi hópur forsætisráðherra sem bjó til þessar breytingar og frumvarpið sem hér liggur frammi. Ef það er samráð hæstv. forseti, ef það er tilraun til þess að brúa gjána sem er á milli þings og þjóðar (Gripið fram í: Þrír embættismenn.) þá, hæstv. forseti, verður gjáin einfaldlega stærri. Það er ekkert flóknara en það.

Ég sagði líka, hæstv. forseti, í ræðu minni að mér hugnaðist stjórnlagaþing sem væri ráðgefandi fyrir Alþingi og á því gætu átt sæti einstaklingar með ólíkan bakgrunn. Þannig kæmi fram vilji, ekki bara fræðasamfélagsins, ekki bara atvinnulífsins heldur líka hins venjulega manns í samfélaginu. Það er tilraun til að brúa bil. Það er tilraun til þess að minnka gjána sem er milli þings og þjóðar.

Um stjórnlagaþing eitt og sér tek ég undir með Sigurði Líndal þar sem hann segir: Ég óttast að 41 þingmaður á stjórnlagaþingi, — ég þori nú ekki að fullyrða orðrétt hvað hann sagði — að það yrði samkoma þar sem menn mundu ræða saman í þrot og ekki komast að niðurstöðu.