136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekkert samráð, segir hv. þingmaður. Samt er það nú þannig að 1. gr. hefur verið til umfjöllunar, fyrst og fremst í tíu ár en í raun má segja í tuttugu ár.

2. gr. er með þeim hætti að mér finnst hv. þingmaður styðja hana í öllum aðalatriðum. 3. gr. gengur út á að fólkið í landinu geti haft frumkvæði að því að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort heldur er um lög að ræða eða mikilvæg málefni sem varða almannahag. Allt er þetta með þeim hætti að ég held að það sé erfitt að halda því fram að þetta séu mál sem ekki hafi verið rædd í þjóðfélaginu.

En það sem mér finnst kannski vera aðalatriðið er að með þessu frumvarpi erum við að auka þátttöku hins almenna borgara í ákvarðanatöku á Íslandi þannig að fólkið upplifi að það komi að ákvarðanatökunni meira en verið hefur. Það eru margir sem halda því fram að (Forseti hringir.) bankahrunið hafi einmitt orðið hér af þeim ástæðum að of fáir hafi farið með of mikil völd.