136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:15]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og 3. gr. segir til um, að það eigi að gefa þjóðinni tækifæri til þess að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál, er nýtt í þessum breytingum um stjórnarskrána. Það er ekkert samráð við þjóðina haft fyrr en það verður að veruleika, virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Virðulegur forseti. Ég sagði það í ræðu minni, hafi hv. þingmaður hlustað, að ég gæti sætt mig við að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál. Ég taldi hins vegar að það þyrfti, og fór sérstaklega inn á það af því að ég er sannfærð um að hv. flutningsmenn hafi ekki reiknað með því að Sjálfstæðisflokkurinn með sína 50 þúsund flokksmenn gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um kannski hvaða mál sem er … (Gripið fram í.) Það er án efa ekki hugmynd þeirra sem flytja þetta frumvarp að það væri hægt. (Gripið fram í.) Það er kristaltært, hæstv. forseti.