136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:12]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna er ég á þeirri skoðun að það eigi við að núna sé rétt að breyta stjórnarskránni á þann veg að forminu er breytt ekki innihaldi einstakra greina stjórnarskrárinnar. Mér finnst sjálfsagt ef um það er sæmilega góð samstaða í þinginu að breyta stjórnarskránni núna þannig að við breytum því hvernig henni er breytt, og á þann veg að breytingar á stjórnarskrá fari framvegis fyrir þjóðina í sérstakri atkvæðagreiðslu.

Ég tel reyndar að betur þurfi að huga að því nákvæmlega hvernig það er lagt fyrir þjóðina. Ég er ekki sannfærður um að það sé nægjanlegt að hvert frumvarp til breytinga á stjórnarskránni sé lagt fyrir þjóðina og hún hafi aðeins möguleika á að segja afstöðu sína til frumvarpsins í heild. Ég held að það þurfi að gefa þjóðinni kost á að lýsa afstöðu sinni hugsanlega til einstakra breytingartillagna, alla vega að tillögur innan hvers kafla stjórnarskrárinnar séu bornar upp. Ég held að menn þurfi að ræða það því að það getur verið — sérstaklega ef menn bera fram margar tillögur, margar breytingar á stjórnarskránni, sem eru ólíkar — að afstaða fólks til þeirra sé mjög breytileg. Fólk getur stutt sumar en verið andvígt öðrum og þess vegna þarf að gefa fólki kost á að geta lýst því.

Þessar þjóðaratkvæðagreiðslur geta því aðeins verið bindandi að þjóðin felli úrskurð sinn um tiltekna niðurstöðu sem er t.d. samþykkt lög eða samþykkt þingsályktunartillaga, þ.e. niðurstaða sem er hægt að svara já eða nei. Mér finnst t.d. ekki hægt að hafa bindandi atkvæðagreiðslu um afstöðu til fóstureyðinga (Forseti hringir.) eða dauðarefsingar.