136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir ágæta og málefnalega ræðu. Ræða hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, þar sem fram komu ýmis sjónarmið, sem ekki hefur verið gefinn mikill gaumur í umræðunni fram til þessa, sýnir auðvitað að margt er órætt í sambandi við stjórnarskrárbreytingar, margir þættir hafa ekki verið teknir inn í umræðuna og ekki er tekið tillit til margra þátta þegar það frumvarp sem hér er lagt fram er til umræðu. Í mínum huga undirstrikar það enn og aftur hversu misráðið það væri af meiri hlutanum hér í þinginu að reyna að ljúka þessu máli, keyra það til enda án þess að huga að svona mikilvægum sjónarmiðum sem inn koma.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ræddi mikið um stöðu landsbyggðarinnar og vægi hennar og af því tilefni vildi ég spyrja hann hvað honum finnist um þær hugmyndir sem birtast í frumvarpi ríkisstjórnarinnar varðandi stjórnlagaþing, þær gera ráð fyrir að kjörið verði til stjórnlagaþings með persónukjöri fyrir landið allt. Telur hv. þingmaður að með því sé tryggt að rödd landsbyggðarinnar heyrist á stjórnlagaþingi eða hefur hann, eins og ég, áhyggjur af því að lítið verði um slíkar raddir á stjórnlagaþingi þegar það kemur saman?