136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:21]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki mikill stuðningsmaður þess að setja upp stjórnlagaþing yfir höfuð. Það eru rök í málinu sem hægt er að fallast á að eigi rétt á sér þó að þau dugi kannski ekki til þess að sannfæra mig um að menn eigi að fara þessa leið til enda. En verði það niðurstaðan að menn vilji láta semja nýja stjórnarskrá og kjósa til þess sérstakt stjórnlagaþing tel ég að það verði að standa allt öðruvísi að því en lagt er til í frumvarpinu, hvort sem það er í því eða breytingartillögum við það.

Eins og það lítur út verður þetta Reykjavíkurþing og ekkert annað. Það er ljóst í kosningafyrirkomulagi af þessu tagi, þar sem landið allt er eitt kjördæmi og 200 þús. manns búa á einu svæði, að ekki þarf mikið skipulag til þess að höfuðborgarsvæðið verði með 95% af þingfulltrúum eða jafnvel 100%. Íbúar einstakra svæða á landsbyggðinni þurfa hins vegar að hafa mikið fyrir því að tryggja kosningu fulltrúa af sínu svæði og það er nánast ómögulegt á ýmsum svæðum, nema hafa einhvers konar bandalög eða stuðning af höfuðborgarsvæðinu sem er trúlega mjög erfitt að ná.

Mér finnst þetta því algjörlega fráleitt fyrirkomulag og er miklu hrifnari af því sem Tómas Árnason nefndi en hann fjallaði um stjórnlagaþing í ræðu sinni sem hann flutti hér fyrir réttum 25 árum og vildi mæta þeim sjónarmiðum að taka þyrfti þetta úr farvegi stjórnmálaflokkanna. Hugmynd hans var sú að hafa einmenningskjördæmi, skipta landinu í einmenningskjördæmi, nokkurn veginn í svipuðum hlutföllum, og þá var miðað við kjördæmaskipanina, og kjósa þingfulltrúa úr einmenningskjördæmi með þeim hætti. Það held ég að væri strax miklu betri útfærsla.