136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Ég er sammála hv. þingmanni, hæstv. forseti, að sú leið varðandi stjórnlagaþing sem lögð er til, bæði í frumvarpi því sem hér er til umræðu og eins í breytingartillögum meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál, sé afar vanbúin og ekki til þess fallin að ná skynsamlegri niðurstöðu.

Ég vek líka athygli á því, í framhaldi og til viðbótar því sem áður hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, að í þeirri útgáfu af stjórnlagaþingi sem verið er að bera hér fram sem breytingartillögur af hálfu meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál hefur óvissuþáttum fjölgað til muna frá því sem áður var. Í upphaflegu frumvarpi var þó fleira útskýrt og fleira ljóst en í breytingartillögunum. Breytingartillögurnar eru jákvæðar að því leyti að þær bjóða upp á að hægt sé að hafa ódýrara stjórnlagaþing en upphaflega frumvarpið gerði ráð fyrir. En gallinn er hins vegar afar mikill og hann er sá að þar birtast miklu óljósari hugmyndir um stjórnlagaþing. Það verður miklu erfiðara fyrir okkur þingmenn að taka afstöðu til stjórnlagaþings sem hugmyndar, sem stofnunar þegar búið er að þvæla málin eins og gert er í breytingartillögum meiri hluta sérnefndarinnar.

Mig langar að spyrja hv. þm. Kristin H. Gunnarsson hvort hann deili ekki þessari skoðun með mér.