136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:25]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sannfærður um að hægt sé að fela sérstöku stjórnlagaþingi það mikla verkefni að endurskoða stjórnarskrána og ætla þeim sem það gera að sinna því í íhlaupum með öðrum störfum. Ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig það á að vera gert, að þingfulltrúar hittist nokkra daga í senn og ræði málin. Ég held að það leiði óhjákvæmilega til þess að hin virka umræða og leitin að niðurstöðu fari fram milli aðila utan stjórnlagaþingsins og á þeim tíma sem það starfar ekki. Mér finnst líklegast að þetta þýði einfaldlega að ríkisstjórnin verði miklu áhrifameiri og sérfræðingar einstakra fræðastofnana eins og háskólans muni fá mjög mikið vald til þess að útfæra þessar hugmyndir, setjast yfir þær, ræða þær í þaula og gefa sér tíma til þess og kalla til þá sem eru sérfróðir á hverju sviði þannig að hinir kosnu stjórnlagaþingsfulltrúar verði hálfpartinn eins og alþingismenn eru stundum í hlutverki gagnvart ríkisstjórn á þessum tímum.

Mér finnst þetta ekki líkleg leið til þess að skila því sem ætlast er til að kjörnir þingfulltrúar komist að niðurstöðu um. Ég held að það verði frekar borin í þá sú niðurstaða sem aðrir komast að.