136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

gengisskráning íslensku krónunnar.

[10:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég er ekki alveg viss um að hv. þingmaður fari rétt með en ég verð að vísu að treysta á minni mitt í því. Ef ég man rétt var ég að tala um að raunhæft eða raunsætt gengi kæmi útflutningsatvinnuvegunum til góða og var þá að sjálfsögðu með í huga samanburðinn við það tímabil þegar gengi krónunnar var allt of hátt, allt of sterkt og útflutnings- og samkeppnisgreinar voru að hverfa og verða að engu. Hvað er nákvæmlega raunhæft jafnvægisgengi á íslensku krónunni miðað við aðstæður okkar núna er auðvitað erfitt að segja. En augljóslega viljum við að gengi krónunnar styrkist og það hef ég margsagt á undanförnum dögum. Það er að sjálfsögðu sú viðleitni sem í gangi hefur verið, t.d. með breytingunum í þinginu fyrir viku síðan, að tryggja að þær skilareglur um gjaldeyri úr útflutningsviðskiptum haldi og allir sitji þar við sama borð. Það er viðleitni til að ná stöðugra og raunhæfara gengi á krónuna sem að sjálfsögðu er sterkara en það sem er í dag.

Ég held að allir séu sammála um að gengi krónunnar er talsvert veikt en vonandi eru menn líka sammála um að það var okkur til stórskaða að búa við það háa og sterka gengi á krónunni sem var um árabil þar á undan. Og einhvers staðar þar á milli hlýtur raunhæft jafnvægisgengi á krónunni að vera sem býr útflutnings- og samkeppnisstarfseminni það hagstæð skilyrði að við getum búið við umtalsverðan afgang á viðskiptum við útlönd sem er okkur lífsnauðsynlegt á næstu árum til að hafa upp í afborganir af erlendum skuldum o.s.frv. Það er í sjálfu sér ekki fjármálaráðherra að gefa út einhverjar viðmiðanir í því enda kannski ekki hægt. En ég held að einhvers staðar á milli þess sem gengið var sterkast og þar sem það er núna, kannski ekki langt frá því að vera mitt (Forseti hringir.) þar á milli, sé líklegt og raunhæft jafnvægisgengi á krónunni.