136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

gengisskráning íslensku krónunnar.

[10:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er alveg rétt og við erum sammála um það, ég og hv. þm. Sturla Böðvarsson, að menn þurfa að tala af yfirvegun og ekki síst um gjaldmiðilinn. Það er mikill ábyrgðarhlutur að tala hann niður. Ég hef gagnrýnt það á undanförnum dögum aftur og aftur þegar menn taka svo til orða að krónan sé ónýt og einskis virði. Það hjálpar henni ekki, það hjálpar okkur ekki í þeirri mikilvægu viðleitni að ná stöðugleika og (Gripið fram í.) raunhæfu jafnvægisgengi á krónunni. Stundum var talið að ógætileg orð og jafnvel blaður stjórnmálamanna hefði fellt krónuna í gamla daga. Þá voru aðrir tímar og henni meira og minna handstýrt. En ég tel að mín viðleitni í þessum efnum hafi öll verið ábyrgð í þeim skilningi að vera ekki að tala niður gjaldmiðilinn og ræða um þessa hluti af skilningi á mikilvægi þess að við náum árangri í þessum efnum. Ég minni á að það er vaxtaákvörðunardagur hjá Seðlabankanum í miðri þessari viku og ekki ólíklegt að í tengslum við hann skýrist (Forseti hringir.) þessi mál að einhverju leyti.