136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

samskipti ráðamanna á leiðtogafundi í ljósi hryðjuverkalaga.

[10:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra var á fundi erlendis í staðinn fyrir hæstv. forsætisráðherra og helstu fréttirnar sem bárust af þeim fundi var það að hæstv. ráðherra neitaði að vera á ljósmynd með Gordon Brown, forsætisráðherra Breta. Það var að hans mati greinilega mjög stór aðgerð sem hann greip þar til gagnvart Bretum, alvörurefsiaðgerð að neita að láta taka ljósmynd af sér. Ég spyr: Er þetta leiðin sem Samfylkingin hyggst fara í til að tryggja varnir landsins, hagvarnir landsins, öryggi landsins, að neita að láta taka ljósmynd af sér með fulltrúum þjóðar sem réðst á Ísland með jafnótrúlegum hætti og Bretar gerðu með því að setja hryðjuverkalög á Ísland og íslensk fyrirtæki. (Fjmrh.: Þetta var bara af því að hann er ljótur.)

Það var vinaþjóð okkar sem réðst gegn Íslandi með því að setja hryðjuverkalög á okkur, réðst gegn íslenskum fyrirtækjum og íslenskum hagsmunum (Gripið fram í.) og það eina sem við virðumst hafa gert er að neita fólki um að láta taka ljósmynd af okkur.

Síðan benda hæstv. utanríkisráðherra og fyrrum utanríkisráðherra á að þeir hafi að vísu fundað með kollegum sínum í Bretlandi, þeir hafi að vísu rætt málin. En kom nokkurn tíma til greina t.d. að kalla heim sendiherrann okkar þegar við urðum fyrir hernaðarlegri árás, fjármálalegri árás á Ísland? Nei. (Gripið fram í.) Forsætisráðherrann okkar þáverandi, Geir H. Haarde, gerði ekki neitt. Þáverandi utanríkisráðherra talaði við þáverandi utanríkisráðherra Breta en gerði fátt annað. Væntanlega passaði hann að láta ekki taka mynd af sér með viðkomandi á sama tíma. (Gripið fram í: Hann gerði mjög margt annað hérna.) — Já, var það ekki að kvitta undir (Forseti hringir.) að við ættum að vera skuldum vafin það sem eftir er?