136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

samskipti ráðamanna á leiðtogafundi í ljósi hryðjuverkalaga.

[10:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég tel að spurningin sem hv. þingmaður beindi til mín sé um hvað íslenska ríkisstjórnin sé að gera til að reyna að fá hryðjuverkalögunum aflétt og sömuleiðis að reyna að koma samningaviðræðum í gang við Breta. Fyrri ríkisstjórn hafði markað stefnu í þeim efnum sem hafði verið samþykkt á Alþingi Íslendinga og ég vísa sérstaklega til ummæla núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins sem taldi í umræðum að það hefði verið ákaflega vel haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli. Ég er sammála því mati. Ég tel að undir forustu hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hafi verið staðið mjög vel að þessu máli, þ.e. á öllum stigum málsins þar sem hún kom að og var komið harkalegum mótmælum á framfæri við utanríkisráðuneytið. Það er til afskrift af fundi hæstv. fyrrverandi ráðherra með breska utanríkisráðherranum og þar kemur mjög skýrt fram hversu fast er haldið á því máli, svo fast að utanríkisráðherra Breta þykir nóg um.

Sömuleiðis var ég sem starfandi utanríkisráðherra þremur sinnum í samræðum við sendiherra Breta þar sem málum var komið fram með ákaflega skýrum hætti. En auðvitað vekur það eftirtekt, herra forseti, að þáverandi forsætisráðherra notfærir sér ekki þá stöðu til að tala við kollega sinn, það var aldrei fundur með forsætisráðherra Íslands og forsætisráðherra Breta og eftir því var aldrei leitað. Það var kannski ámælisvert. Á þeim fundi sem ég átti með utanríkisráðherra Breta í síðustu viku — ég átti reyndar tvo fundi — var afstöðu Íslendinga komið mjög skýrt á framfæri. Við teljum nú að við séum búin að koma þessu máli á pólitískt stig og það séu að fara í gang samningaviðræður sem vonandi leiða til farsællar niðurstöðu og til þess að Íslendingar þurfi ekki að taka á sig miklar byrðar, hugsanlega engar. Þannig er staðan á eignum (Forseti hringir.) Landsbankans en það er alveg ljóst að þetta mál er komið í allt annan farveg (Forseti hringir.) en í tíð fyrri ríkisstjórnar.