136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

gjaldmiðilsmál.

[10:48]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Mig langar til að ræða við hæstv. fjármálaráðherra um gjaldmiðilsmál vegna þess að í morgun birtist frétt í Ríkisútvarpinu um trúnaðarskýrslu sem Lundúnablaðið Financial Times hefur komist yfir. Þetta er trúnaðarskýrsla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem tekin var saman fyrir mánuði. Þar leggur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn til að aðildarríki Evrópusambandsins í Mið- og Austur-Evrópu, sem orðið hafa hvað verst úti í kreppunni, leggi niður gjaldmiðla sína og taki upp evru án þess að ganga formlega í evrópska myntsamstarfið.

Í skýrslunni segir að með því að taka upp evru sé best hægt að leysa erfiðleikana vegna skulda ríkjanna í erlendum gjaldeyri, eyða óvissu og byggja upp traust. Verði evra ekki tekin upp muni erlendu skuldirnar leiða til mikils niðurskurðar sem geti valdið miklum pólitískum óróa.

Það sem mig langar til að vita er hvort viðræður í þessa veru, sem tímaritið The Economist hefur jafnframt bent á, hafi átt sér stað milli hæstv. fjármálaráðherra og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á síðustu vikum og hvort ríkisstjórnin telji þá leið, einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils á Íslandi, mögulega fyrir okkur Íslendinga.

Í annan stað langar mig til að víkja að ræðu Bandaríkjaforseta, Baracks Obamas, sem hann hélt fyrir nokkrum dögum. Þar lýsti Bandaríkjaforseti því að upptök þeirrar fjármálakreppu sem við værum í og falls fjármálakerfisins mætti rekja til vandræða á húsnæðismarkaði í Flórída. Ég tel að í þessu felist gríðarlega mikil viðurkenning á því að uppruni fjármálakreppunnar hafi átt sér stað í Bandaríkjunum og ég velti fyrir mér hvort ríkisstjórnin telji að ræða Bandaríkjaforseta veiti íslensku ríkisstjórninni ekki tilefni til (Forseti hringir.) að taka upp viðræður við bandarísku ríkisstjórnina (Forseti hringir.) um aðgerðir í efnahagsmálum á Íslandi, til að mynda (Forseti hringir.) í gjaldmiðilsmálum eða á öðrum sviðum.