136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

gjaldmiðilsmál.

[10:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég hef ekki í mínum höndum skýrslu Alþjóðgjaldeyrissjóðsins um málefni ríkjanna í Austur-Evrópu, hef tekið eftir þessum tillögum og fylgst með fjölmiðlaumfjöllun um hana. Það verður að hafa í huga að hér eiga í hlut ríki sem mörg hver, og væntanlega reyndar flest, eru þegar komin í Evrópusambandið en hafa beðið eftir því að taka upp evru. Sum þeirra, eins og Lettland og ef ég veit rétt líka Ungverjaland, hafa þegar tengt sínar myntir við evru sem veldur þeim reyndar ærnum vandræðum núna og leiðir til mikilla erfiðleika í hagstjórn í viðkomandi löndum þar sem löndin þurfa m.a. að eyða dýrmætum gjaldeyrisvaraforða í að verja þessa tengingu. Má um það deila hversu góður búskapur það er. Að margra mati er kreppan og hrunið t.d. í Lettlandi að dýpka mikið vegna þeirra þvinguðu aðstæðna sem þar eru uppi.

Ísland er í allt annarri stöðu, algjörlega ósambærilegri, og engar viðræður hafa verið, a.m.k. ekki milli mín og að ég best veit ríkisstjórnarinnar og Alþjóðgjaldeyrissjóðsins, um sambærileg mál hér. Þvert á móti gengur mikilvægur hluti efnahagsstöðugleikaáætlunarinnar út á að koma upp fullnægjandi gjaldeyrisvaraforða og styrkja gengi krónunnar. Á það leggur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áherslu alveg eins og við gerum, að sjálfsögðu.

Að lokum tek ég undir það með hv. þingmanni að margt áhugavert er á dagskrá í Bandaríkjunum og hjá inni nýju ríkisstjórn Obamas. Ég held að það verði fróðlegt fyrir okkur að fylgjast þar vel með og eftir atvikum reyna að byggja upp tengsl og efla samband við ný stjórnvöld í Bandaríkjunum. Það er áhugavert, þar eru ýmsir hlutir á dagskrá sem okkur varðar og reyndar allan heiminn, mjög miklu. Það er stórmál fyrir allan heiminn hvernig hinni nýju ríkisstjórn Baracks Obamas muni ganga að glíma við ástandið í Bandaríkjunum og við hljótum þar af leiðandi að óska honum alls góðs í glímu hans við kreppuna, rétt eins og við væntum þess að (Forseti hringir.) aðrar þjóðir hafi skilning á okkar baráttu.