136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

hvalveiðar og hvalaskoðun.

[11:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram að ég fundaði auðvitað rækilega með þessum aðilum í febrúar í aðdraganda þess að ákvörðun var tekin um hvalveiðiþáttinn sjálfan. Í því ferli, eftir að tilkynningin var send út og þangað til niðurstaða lá fyrir, var unnið með ráðuneytum umhverfis-, ferða- og utanríkismála þannig að þau komu sjónarmiðum sínum að. Í gögnum málsins sem voru lögð upp voru greinargerðir frá þessum ráðuneytum. Ég hef svo sem enga ákvörðun tekið um hvernig ég haga þá fundahöldum eða samskiptum við þessa aðila í nýrri umferð áður en hvalaskoðunarsvæðin verða endanlega ákveðin eða gefin út, en það er sjálfsagt að fara yfir það og þar á meðal ráðuneyti ferðamála. Reyndar tel ég mig vera ágætlega inni í þeim málaflokki, ég fór með þau mál einu sinni, á hinni öldinni, og hef góðar taugar til ferðaþjónustunnar þannig að ég get alveg róað hv. þingmann hvað það varðar, ég hef fullan skilning á mikilvægi hennar og þörfum í þessum efnum og mun hafa ferðaþjónustuna til hliðsjónar. (Forseti hringir.) Það er samt sjálfsagt mál að fara yfir það með ráðuneytinu líka.