136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

námslán og atvinnuleysisbætur.

[11:02]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að frumvarp um hvali skuli vera væntanlegt en vil kannski beina sjónum mínum aðeins að öðru í dag.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um síaukið atvinnuleysi og ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það hér. Einhverjir þeirra sem misst hafa vinnuna kynnu að hafa áhuga á því að sækja sér frekara nám til að halda geðheilsu og auka samkeppnishæfni sína til að eiga meiri möguleika á vinnumarkaði. Þetta sama fólk stendur þó frammi fyrir því að atvinnuleysisbótaþakið getur verið töluvert miklu hærra en hámarksnámslán fyrir einstakling. Hámarksgrunnlán einstaklings er 900 þús. kr. fyrir árið enda er gert ráð fyrir því að skólafólk vinni sér inn a.m.k. milljón þess utan sem hlýtur að vera áhyggjuefni um þessar mundir. En sami einstaklingur gæti fengið allt að þrisvar sinnum þá tölu í atvinnuleysisbætur ef miðað er við tekjutengdar hámarksbætur í þrjá mánuði og fullar bætur í 9 mánuði eftir það. Það þarf ekki að taka það fram að þeir sem stunda nám eiga að sjálfsögðu ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Það er því alveg ljóst að kerfið gerir þeim ekki, sem ekki hafa borð fyrir báru, kleift að fara af atvinnuleysisbótum í nám. Það eru því eingöngu þeir sem búa við góðar félagslegar aðstæður, eiga sparifé sem þeir geta lifað af eða eiga velunnara sem geta séð fyrir þeim sem eiga þess kost að nýta sér þau tilboð sem menntakerfið hefur upp á að bjóða. Telur hæstv. forsætisráðherra þetta í anda þess sem rætt hefur verið um að möskva öryggisnetsins þurfi að þétta til að þeir sem mest þurfa á því að halda fái aðstoð úr velferðarkerfinu? Fyrir mína parta er þetta hróplegt óréttlæti, herra forseti, og að mínu mati til vansa fyrir ríkisstjórn sem kennir sig við jöfnuð og félagshyggju og ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað hæstv. ríkisstjórn telur að sé til ráða til að auka jafnræði og sanngirni hvað þetta varðar.