136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

námslán og atvinnuleysisbætur.

[11:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þetta er kannski spurning sem að mestu leyti varðar verksvið menntamálaráðherra og ég get upplýst hv. þingmann um að menntamálaráðherra tók þessi mál upp í ríkisstjórn á föstudaginn var og gerir væntanlega aftur á morgun. Það er verið að vinna mjög mikið í að skoða þetta í heild sinni og þar koma inn annars vegar möguleikar námsmanna til þess að vera í námi t.d. í sumar og möguleikar háskólanna til að bjóða upp á það og hvernig hægt verður að kljúfa það fjárhagslega. Það lýtur bæði að háskólunum sjálfum, að þeir hafi bolmagn til að bjóða upp á námið, og það lýtur að möguleikum lánasjóðsins til að veita lán þegar um lánshæft nám er að ræða og síðan er þáttur Atvinnuleysistryggingasjóðs í þessu að sjálfsögðu einnig til skoðunar. Ég geri ráð fyrir að um það sé ekki ágreiningur að það sé auðvitað miklu æskilegra námsmenn geti nýtt tíma sinn í sumar, þeir sem ekki eiga kost á vinnu, í nám og hraðað framvindu síns náms heldur en að vera á atvinnuleysisbótum og mæla göturnar. Yfir þetta er verið að fara og það er á forræði menntamálaráðherra og hún stjórnar því verki. Ég vona að tiltölulega fljótlega skýrist myndin enda liggur á að fá botn í það hvað menn telja viðráðanlegt og mögulegt að gera en allir eru sér meðvitaðir um að þarna er um mjög stórt mál að ræða sem mun hafa mikil áhrif á það hvernig okkur gengur að fara í gegnum sumarið, þ.e. hvort hér verður mikið fjöldaatvinnuleysi námsmanna með tilheyrandi kostnaði á atvinnuleysisbótahliðina fyrst og fremst. Að einhverju leyti getur kostnaður lent á sveitarfélögum og því þurfa sveitarfélögin að mínu mati líka að koma að borðinu. En yfir þetta allt saman er verið að fara og menntamálaráðherra stjórnar þeirri vinnu.