136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

námslán og atvinnuleysisbætur.

[11:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er því miður sorglega lítið til að halda utan um. Það er ekki mikið í buddunni, það vita allir. Að sjálfsögðu vildum við helst, a.m.k. er það eindregin afstaða míns flokks, komast út úr eftirágreiðslu námslána yfir í samtímagreiðslur. Menn hefðu betur aldrei farið inn á þá braut með tilheyrandi viðbótarkostnaði fyrir kerfið og flækjustigi sem það veldur. Hið upphaflega fyrirkomulag sem Lánasjóðurinn byggði á frá byrjun og var við lýði allt þangað til menn hörfuðu yfir í eftirágreiðslurnar var að sjálfsögðu miklu betra og ódýrara í heild þegar upp er staðið, sérstaklega betra fyrir námsmenn.

Staða Lánasjóðs íslenskra námsmanna er hins vegar mjög erfið. Fjárveitingar til hans voru skornar niður um einn milljarð kr. í fjárlögum yfirstandandi árs og sá vandi er þar til að takast á við. Það veikir auðvitað stöðu sjóðsins til þess að taka á sig viðbótarbyrðar eins og núna og hann hefði þurft að vera í betri færum til að gera, t.d. að lána út á lánshæft nám í sumar. Einhvern veginn verður að takast á við það og það er skoðað samhliða öllu hinu sem ég nefndi áðan.