136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:11]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi vildi ég segja, hæstv. forseti, að ég hvet forseta til að taka til greina þá tillögu um breytingu á dagskrá sem hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir lagði fyrir forseta og óska eftir því að forseti gefi svar strax.

Að öðru leyti vil ég vekja athygli á því að hingað er kominn þingmaðurinn Mörður Árnason, hv. varaþingmaður. Samkvæmt áformum forseta á að ljúka þinghaldi á morgun. Hann er kallaður inn sem varamaður í dag og á að sitja þá væntanlega tvo daga á þingi áður en þinghaldinu er lokið. Það vekur afskaplega mikla athygli hvernig að málum er staðið þegar auknar kröfur voru gerðar í breyttu skipulagi þingsins um að gæta þess að kalla ekki inn varamenn nema brýn þörf væri á og (Forseti hringir.) reglum breytt til að fækka inntöku varamanna og (Gripið fram í.) þá kemur hv. þm. Mörður Árnason hér inn.