136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi. Ég mundi einmitt halda að það væri mjög nauðsynlegt að klára umræðuna um stjórnarskipunarlögin vegna þess að þar erum við að setja inn í stjórnarskrána ákvæði um auðlindir þjóðarinnar. Miðað við þær upplýsingar sem komu fram um helgina frá hagfræðingnum Michael Hudson og rithöfundinum John Perkins er einmitt kannski ástæða til að setja þetta ákvæði inn í stjórnarskrána til að tryggja að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem innheimtumaður erlendra kröfuhafa, komist ekki yfir náttúruauðlindir og fjármuni Íslendinga. Það var nú þannig og má minna á það að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn kvittuðu upp á það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kæmi hingað til lands. Áður en við förum að ræða um fjárfestingarsamninginn um Helguvík, áður en við höldum áfram að ræða nokkurt annað mál held ég að við verðum að tryggja það að auðlindir þjóðarinnar verði í eigu þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Það gerum við ekki öðruvísi en að setja þetta ákvæði inn í stjórnarskrána. (Gripið fram í.) Við klárum það fyrst og síðan getum við rætt Helguvík.