136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:15]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þetta er að verða hefðbundinn dagskrárliður að hlaupa upp um störf þingsins og það eru sjálfstæðismenn sem hefja þennan leik hér í upphafi nánast hvers einasta fundar.

En það er alveg skýrt að þetta er mál sem við leggjum áherslu á að verði klárað og ég vil taka undir orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem sagði svo réttilega að sjálfstæðismenn ættu að hætta að halda Alþingi í gíslingu.

Meiri hluti er fyrir málinu hér á þingi og sjálfstæðismenn ættu frekar að gera grein fyrir þessum málflutningi sínum í næstu kosningum. Af því að valdið kemur frá þjóðinni en ekki frá Valhöll. Þannig að ég legg til að við höldum áfram með dagskrána og látum þetta mál ganga fram og greiðum síðan atkvæði um það. Þá kemur í ljós hvort ekki sé öruggur meiri hluti fyrir málinu.