136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:21]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Hér í umræðu um fundarstjórn forseta hafa menn gert grein fyrir hvernig þeir skilgreina átakalínurnar í umræðunni um stjórnarskrárfrumvarpið. Ég vil láta koma fram hvernig ég lít á það mál.

Í meginatriðum er í því frumvarpi lagt til að breytingar á stjórnarskránni verði framvegis lagðar fyrir þjóðina. En átökin standa um það að þeir sem að frumvarpinu standa vilja ekki leggja tillögurnar fyrir þjóðina heldur vilja að þingið eitt afgreiði þær, annars vegar tillögu um stjórnlagaþing og hins vegar tillögu um náttúruauðlindir. Það er krafa meiri hluta þingmanna miðað við frumvarpið að þjóðin fái ekki að greiða atkvæði um þessi tvö mál. Mér finnst eðlilegt að þjóðin fái að greiða atkvæði um stjórnlagaþing og orðalag um náttúruauðlindir í stjórnarskrá.