136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ákaflega sérstök málsmeðferð. Ég hvet virðulegan forseta til að fresta nú fundi og kalla saman fund með þingflokksformönnum til að fara yfir þetta. Vonandi má á slíkum fundi finna fleiri mál sem koma heimilunum og atvinnulífinu til góða í þessu landi frá hæstv. ríkisstjórn, loforðum sem hún er búin að lofa þjóðinni á undanförnum vikum og mánuðum. Vonandi gæti ríkisstjórnin komið inn á dagskrána í dag einhverju máli sem skiptir máli fyrir þessa þjóð.

Ég er búinn að segja hér, hv. þingmenn, að við sjálfstæðismenn munum standa hér vaktina til að verja stjórnarskrána. Við munum standa hér vaktina í nafni lands og þjóðar, en við munum ekki gefast upp undir þessum þrýstingi sem er á okkur. Þess vegna hvet ég ykkur, og höfða hér sérstaklega til hv. þingmanna Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins, að standa nú með okkur sjálfstæðismönnum í því að gera hér breytingar á dagskrá þannig að á dagskrá komist mál frá þessari ríkisstjórn (Forseti hringir.) sem skipta heimilin og fyrirtækin í landinu máli, (Forseti hringir.) að við tökum fyrir að ræða hér mál sem hafa einhverja þýðingu. Við munum standa vaktina fram (Forseti hringir.) á síðasta dag í stjórnarskrármálinu.