136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:28]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir. Það munar ekki miklu en það munar grundvallaratriði um hvort stjórnlagaþing eða vinnuhópur, sem við viljum raunverulega kalla það, sé æðri Alþingi, í jafnstöðu við Alþingi eða sem ráðgjafi.

Hvað er eðlilegra en að Alþingi taki við skjölum frá slíkum vinnuhóp, hvort sem það er 10 manna hópur sem þar að auki er þjóðkjörinn — við eigum ekki að þurfa þess í samfélagi okkar að eyða peningum í það — eða þjóðkjörinn hópur? Hvaða munur er á því að Alþingi fjalli síðan um það? Alþingi þarf að fjalla um það. Þjóðin þarf að fjalla um hvort sem það verður í sérstökum kosningum eða þá í næstu alþingiskosningum. Þetta minnir mig, virðulegi forseti, á sumarferð við Miðjarðarhaf einhverju sinni, þá voru seldar einnota sundbuxur úr pappír. Þær áttu að duga í klukkutíma, þá leystust þær upp. Þessi boðun um stjórnlagaþing er bara eins og einnota sundbuxur. Þetta er einnota þing, síðan á Alþingi að sjá um framtíðina. Hvaða millileikur er þetta? Geðþóttaákvörðun vegna Framsóknarflokksins? Geðþóttaákvörðun til þess að fá hálsmen fyrir ríkisstjórnina og umboð til að fara í kosningar án þess að hafa kosningabaráttu, án þess að kynna fólkinu í landinu á ögurstundu hvað skiptir máli, hvað menn leggja til og hverju menn mega beita sér fyrir. Þetta er feluleikur, virðulegi forseti, sem er sorglegur. Hann stendur í stutta stund. Það eru nokkrar vikur eftir en ég vona að þjóðin átti sig á því að þessar einnota sundbuxur eru orðnar svo slitnar að það blasir við sem ekki er hægt að fela. Það er stjórnleysið. Stjórnleysið, virðulegi forseti.