136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

dagskrá næsta fundar.

[12:54]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég styð að sjálfsögðu þá tillögu sem við greiðum atkvæði um vegna þess að það á að vera í forgangi að sinna málum sem varða heimilin og fyrirtækin. Ef þessi tillaga verður felld undirstrikar það að ríkisstjórnarflokkarnir eru með haustöfluhnykk á þinginu, þeir vilja ekki heyja kosningabaráttu í landinu, vilja ekki eðlilega kynningu, vilja ekki að stjórnmálamenn landsins fari um byggð og bæ og kynni það sem þeir vilja leggja áherslu fyrir komandi kosningar.

Ríkisstjórnin er með haustak á Alþingi til að koma í veg fyrir eðlilega kosningabaráttu á Íslandi í fyrsta skipti (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn …) í sögu lýðveldis á Íslandi. (Gripið fram í: Það eru ekki ríkisstjórnarflokkarnir sem …) Það eru ríkisstjórnarflokkarnir sem keyra með valdbeitingu gegn rökum og nota stjórnarskrána sem skjól (Gripið fram í.) til að dansa þennan dans. (Forseti hringir.) Stjórnarskráin er skjól og það er ekki mikil virðing fyrir stjórnarskránni að gera það.