136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

dagskrá næsta fundar.

[12:56]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þessi tillaga hér er einstök í sögu þingsins, að hér komi fram dagskrártillaga á miðjum þingfundi um dagskrá sem liggur fyrir. Öll málin sem hér er talað um eru á dagskrá en samt kemur tillaga um að dagskránni verði breytt. Auk þess eru 25 þingmenn úr þeim flokki sem ber upp óskina á mælendaskrá um það mál (Gripið fram í: 26.) (Gripið fram í: Enda málið mikilvægt.) sem sýnir einmitt hvað málið er mikilvægt og þess vegna þarf að ræða það og á að ræða það. [Hlátur í þingsal.] Þess vegna er algjör þversögn þegar sömu þingmenn koma hér, 25 á mælendaskrá, og segjast ekki vilja ræða málið. Þeir vilja fresta því að ræða málið. Þetta er svo fáránleg þversögn að það er viðkomandi flokki til háðungar.

Ég held samt að þessi atburður hér, að keyra fram á svona (Forseti hringir.) röngum og vitlausum forsendum breytingar á dagskránni — (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) það er bara dapurlegt að stærsti núverandi flokkur, vonandi verður hann ekki svona stór eftir kosningar, komi með þetta fram.