136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

dagskrá næsta fundar.

[12:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að þingheimur sé sammála um tvennt í þessu máli, annars vegar að umræðan um stjórnarskrána er mikilvæg, það er eðlilegt að menn tjái sig um hana og reyndar tel ég skyldu þingmanna að ræða það mál til hlítar. Það höfum við sjálfstæðismenn gert. Jafnframt tel ég ágætan skilning á því að það þurfi að koma þessum málum hér í gegn, málum sem lúta að Helguvík og fleiri mikilvægum sem snúa að þeim málum sem skipta máli fyrir þjóðfélagið akkúrat núna.

Ég tel að við sjálfstæðismenn höfum lagt hér fram góða lausn á þessu máli, þ.e. að við snúum okkur strax í góðu samkomulagi að því að afgreiða þau mál sem virkilega skipta máli fyrir heimilin og atvinnulífið í landinu, göngum frá þeim hratt og örugglega, höldum síðan áfram að sinna skyldu okkar sem er að ræða um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. (Gripið fram í: Hvað segir …?) Það er fyrir neðan virðingu þingsins að tala eins og hér hefur ítrekað verið gert, að það sé eitthvert málþóf þegar menn ræða um stjórnarskrána. Ræður þingmanna Sjálfstæðisflokksins hafa verið innihaldsríkar [Hlátur í þingsal.] og skipta töluvert miklu máli í þeirri umræðu sem hér er. Það getur vel verið að hv. þingmönnum, mörgum hverjum, þyki (Forseti hringir.) þetta skemmtilegt. Fæstir þeirra hafa þó haft þolinmæði til að sitja í salnum og fylgjast með (Forseti hringir.) þeim umræðum og kann að vera að þeirra eigin hugur (Forseti hringir.) valdi kátínu.