136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

dagskrá næsta fundar.

[13:00]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forseta fyrir að taka þetta mál á dagskrá og gefa þingheimi tækifæri til að greiða atkvæði um það. Við greiðum atkvæði um þá tillögu okkar sjálfstæðismanna að fresta eða setja síðar á dagskrá lið sem fjallar um stjórnarskrána og taka til umræðu önnur þau mál sem eru á dagskrá plús tvö önnur mál sem nefnd hafa verið, öll mikilvæg mál fyrir samfélagið í dag. Það kemur í ljós í atkvæðagreiðslu hvaða áherslur þingmeirihlutinn hefur, hvort hann vill afgreiða fljótt og vel þau frumvörp sem hér liggja fyrir og sátt er um sem eru til hagsbóta fyrir heimilin í landinu eða hvort menn vilja halda áfram því sem hér er, að ræða fyrst stjórnarskrána og síðan að taka fyrir þau mál sem skipta máli. Atkvæðagreiðsla mun leiða í ljós þá forgangsröð (Forseti hringir.) sem þingmenn vilja.