136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:05]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég þakka forseta fyrir að ætla að taka þessa ósk mína til skoðunar. Ég tel að það hljóti að vera fullkomlega eðlilegt að þingmenn sem eru bundnir af framboðsfundi vestur á Ísafirði þurfi ekki að vera viðstaddir fund hér akkúrat á meðan sá fundur stendur yfir því að við höfum skyldum að gegna í þinginu eins og bent var á hér, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir kallaði það fram í. Ég legg mikla áherslu á að þetta er stefnumarkandi ákvörðun. Gert var hlé á þingfundi meðan formenn flokkanna voru í sjónvarpsþætti. Mér þætti það fullkomlega óeðlilegt gagnvart Norðvesturkjördæmi að halda úti þingfundi hér á meðan framboðsfundur er vestur á Ísafirði. Þess vegna legg ég áherslu á það, hæstv. forseti, að þessari ósk verði vel tekið.