136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:09]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég heyri að forseti vill taka vel í þessar ábendingar okkar í þinginu en hún vék ekki að því atriði sem ég nefndi hér. Ég nefndi það að þessi mikli framboðsfundur sem forseti Alþingis, Guðbjartur Hannesson, er nú á leiðinni á fer fram á Ísafirði. Fleiri þingmenn úr því kjördæmi sitja á þingi og vilja ræða þau mál sem hér eru til umfjöllunar en jafnframt fara á fundinn. Þessir hv. þingmenn eiga réttmæta kröfu til þess að fá upplýsingar um hvernig forseti hyggst halda fundarstörfum áfram til að þeir geti gert sínar áætlanir. Þeir þurfa auðvitað ákveðinn tíma til að koma sér á fundarstað og ég veit að hæstv. forseti sem nú situr í forsetastóli hefur skilning á því, enda kemur hæstv. forseti úr stóru og víðfeðmu kjördæmi og veit að oft er um langan (Forseti hringir.) veg að fara á fundarstað. Ég óska eftir viðbrögðum við þessum athugasemdum.