136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:54]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að gefa Sjálfstæðisflokknum einkunn hér fyrir þessa umræðu. En það er umhugsunarefni að hv. þingmaður nefndi hér bananalýðveldi. Maður þarf að hugleiða þau orð í ljósi þeirrar stöðu sem þjóðarbúið er í og í ljósi þess viðskilnaðar sem við blasir eftir átján ára stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins á Íslandi.

Mitt erindi hingað í ræðustól er að upplýsa hv. þingmann um að það er ekki rétt að sú hv. sérnefnd sem hér leggur fram breytingartillögur hafi gert það án samráðs við Samband íslenskra sveitarfélaga að leggja til að kosið yrði til stjórnlagaþings um leið (Gripið fram í.) og kosið er til sveitarstjórna vorið 2010.

Vill hv. þm. Björn Bjarnason gjöra svo vel að gefa mér leyfi til þess að ljúka máli mínu. Ég átti þess kost að sitja á fundi nefndarinnar þar sem fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga komu fyrir nefndina — tveir fulltrúar, þar af annar sviðsstjóri lögfræðisviðs, sem gefur þá umsögn sem hér liggur fyrir, og sjálfstæðismenn hafa ítrekað vitnað til. Þessir tveir fulltrúar voru ítrekað spurðir að því á fundinum hvort þeir hefðu einhverjar athugasemdir við það eða ábendingar varðandi þá hugmynd sem þá var til umræðu í nefndinni (BBj: Þetta er ekki rétt.) að kjósa á sama tíma til þessa tvenns, og þeir sáu því ekki neitt til fyrirstöðu.

Ég mótmæli því að það sé fullyrt hér að ég fari með lygi úr þessum stól, hv. þm. Björn Bjarnason. Ég var á þessum fundi og það voru tíu aðrir.