136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er í grunninn á móti frumvarpinu eins og það leggur sig og öllum efnisatriðum þess, öllum greinunum. Ég get þó fallist á það, eins og félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum, að gerð verði breyting á 79. gr. stjórnarskrárinnar til að í framtíðinni verði hægt að greiða fyrir stjórnarskrárbreytingum. Það er eðlilegt að hv. þm. Mörður Árnason sé ekki upplýstur um þetta vegna þess að hann kemur nýr inn í þessa umræðu. Ég vil þó að skoðun mín komi skýrt fram.

Eins og umsagnaraðilar um frumvarpið hef ég miklar efasemdir um að 1. gr. frumvarpsins gangi hreinlega upp. Hugtök sem þar er vísað til eru óljós og óskýr og ekki í þeim búningi að mögulegt sé að taka þau inn í stjórnarskrána eins og þau eru úr garði gerð. Ég er líka andsnúinn stjórnlagaþinginu sem lagt er til. Ég tel að mér sem þingmanni á Alþingi Íslendinga beri hreinlega að vera á móti því ákvæði, einfaldlega vegna þess eiðs sem ég hef undirritað hér.

Ég hef svo sem ekki gert mikla athugun á pólitískum bakhjörlum þeirra umsagnaraðila sem skiluðu inn umsögnum um málið. Ég hef hins vegar gagnrýnt að ótrúlega oft er málstaður BSRB annars vegar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hins vegar mjög samhljóða og hefur verið í alveg ótrúlega mörgum málum sem við höfum haft til umfjöllunar á Alþingi. Ég veit ekki um aðra umsagnaraðila en ég minni á að forseti ASÍ er fyrrverandi (Forseti hringir.) frambjóðandi fyrir Samfylkinguna og það (Forseti hringir.) kannski skýrir góðan hug ASÍ til þessa máls.