136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:25]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þingmaðurinn gengur lengra og hefur nú fundið út að alveg á sama hátt og BSRB lætur afstöðu sína til stórmáls á borð við þetta ráðast af flokksaðild formanns síns sé Alþýðusamband Íslands teymt á eftir formanni þess sem verið hafi í Samfylkingunni. Það eru ný vinnubrögð á þinginu að meta umsagnir í þessu ljósi og (Gripið fram í.) úr því að ræðumaður gerir það verður að fara fram á það að hann flytji í einni af síðari ræðum sínum, sem hann ætlar að halda margar samkvæmt yfirlýsingu sinni í ræðustól áðan, samantekt um það hvernig háttar flokkspólitískri aðild þeirra sem koma að öðrum umsögnum.

Ég held að við eigum á þinginu að láta svona nokkuð eiga sig. Ég held að það sé þingmanninum ekki til sóma að atyrða með þessum hætti Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusamband Íslands þótt hann sé óánægður með starf þessara samtaka af fleiri ástæðum en þeim hvaða afstöðu þau hafa tekið til þessa frumvarps.

Ég verð svo að segja í lokin, af því að ég veit að þingmaðurinn er glöggur og veit margt um stjórnmál í Evrópu, að það var skemmtilegt að heyra hann ræða um stjórnarskrár og vinstri menn. Það er auðvitað hættulegt að fara langt aftur í söguna með ýmis hugtök en ég held að það hafi einkum verið vinstri menn, ef það mætti draga í þá dilka, á 18. og 19. öld — þannig að við förum ekki lengra aftur — sem stóðu að því að búa til stjórnarskrár þegar hægri menn eins og hv. þingmaður studdu einvalda konunga. Samtímasöguþekking þingmannsins er líka frábær því að hann hélt því fram að vinstri menn hefðu staðið í fararbroddi stjórnarskrár þeirrar sem gerð var tilraun til að gefa Evrópusambandinu, en fulltrúi þeirra breytinga var fyrrverandi Frakklandsforseti Valery Giscard d'Estaing sem ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort heldur hafi verið (Forseti hringir.) til vinstri eða hægri.