136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:30]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Flestir ræðumenn Sjálfstæðisflokksins beina til mín orðum í þessari umræðu. Eftir fjölmargar ræður hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins þekki ég orðið formrök þeirra og gagnrýni á efnismeðferð o.fl. og flestir þeirra hafa lesið margsinnis upp úr sömu plöggum þannig að þetta er farið að síast inn. Ég hef hins vegar reynt að kalla eftir efnislegri umræðu um málið, ég hef kallað eftir afstöðu og ég kalla eftir afstöðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar til 1. gr. eins og hún liggur nú fyrir breytt. Tvær málsgreinar sem sættu harðastri gagnrýni voru teknar út og eftir stendur tillaga um að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign og þær megi ekki láta varanlega af hendi. Þetta er tillaga sem hefur verið í stjórnarsáttmálum Sjálfstæðisflokksins og enn fremur í frumvarpi sem Geir H. Haarde, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, fluttu eins og kunnugt er.

Ég spyr um efnislega afstöðu hv. þingmanns til þessa og enn fremur til 2. gr. sem ég hef heyrt sjálfstæðismenn segja að nauðsynlegt væri að setja, þ.e. ákvæði um það hvernig stjórnarskránni er breytt, að þær breytingar fari í þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki í tvennar alþingiskosningar eða hvernig sem það er. Ég hef heldur ekki heyrt betur en að Sjálfstæðisflokkurinn væri sammála 3. gr. Burt séð frá vinnubrögðum og öðru slíku, ef menn eru efnislega sammála er þá ekki hægt að komast að niðurstöðu um málið, taka það inn í nefnd milli 2. og 3. umr. og leita lausna?

Sjálfstæðismenn eru heldur ekki svo ósáttir við 4. gr., þar stendur hnífurinn í því hvort þingið eigi að vera ráðgefandi eða ekki. Þá er spurning: Finnum við lendingu í því? Ég segi að frumvarpið sé efnislega gott, það hefði mátt standa að því öðruvísi í forminu en ég verð þó að segja að 1. gr. (Forseti hringir.) er unnin eins ítarlega og vandað og hægt er (Forseti hringir.) með störfum auðlindanefndar.