136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:35]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað skiljum við þingmenn stjórnarinnar fyrr en skellur í tönnum. Maður spyr: Af hverju þurfa þingmenn Sjálfstæðisflokksins að flytja 26 ræður um vinnubrögðin? Og af hverju stendur flokkurinn í málþófi (Gripið fram í: Málþófi?) um stuðning við kvikmyndagerð á Íslandi, í máli sem þeir styðja? Af hverju ekki að leita lausna í þessu máli, sérstaklega þar sem ekki ber svo mikið á milli?

Það er efnislegur ágreiningur um 4. gr. en tæknilega um hitt, nema hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson lýsi því berlega yfir að hann sé á móti þjóðareign á náttúruauðlindum. Það er miklu heiðarlegri afstaða og ég kynni vel að meta hana. Það er algjörlega ljóst að þetta ákvæði hefur klára og skýra lögfræðilega þýðingu. Því hefur Björg Thorarensen prófessor lýst fyrir nefndinni sem og fleiri.

Ég verð líka að segja að mesta gagnrýni innan nefndarinnar, og það held ég að nefndarmenn geti borið vitni um, í umsögnum og annars staðar, laut að 2. og 3. mgr. 1. gr. sem hafa verið felldar út. (Gripið fram í.) Efnislega gagnrýnin var langmest um þær. Þjóðareignin var vissulega gagnrýnd en annaðhvort eru menn með henni eða ekki. Það er ekki verið að breyta eignarréttarkerfinu á Íslandi, einstaklingsréttinum þar eða öðru, enda hefðu sjálfstæðismenn aldrei farið inn með náttúruauðlindir í þjóðareign í stjórnarsáttmála nema þeir væru þess fullvissir, hvað þá að hæstv. forsætisráðherra flytti frumvarp þar að lútandi.

Ég bið sjálfstæðismenn að staldra við, leita lausna og hugleiða hvort ekki sé nær að klára umræðu um þetta mál, fara með það í nefnd milli 2. og 3. umr. og fara í mikilsverðari mál. Að vísu er þetta mál afar mikilsvert vegna þess að það snýst um lýðræðið.