136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa yfir nokkurri ánægju með að hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna skuli hafa tekið smávegis þátt í þessari umræðu með því að veita andsvör við ræðum hér. Nokkur skortur hefur verið á því að hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna kæmu með rökstuðning sinn hér inn í þingið og tækju þátt í þessari umræðu. Ég tek það svo að þeir hafi ákveðið að bæta þar úr og muni hér eftir verða virkari í þeirri umræðu sem hér á sér stað enda er hún mikilsverð. Þetta er mikilsverð umræða vegna þess að við erum að fjalla um stjórnarskrána, grundvallarlög landsins. Við erum að fjalla um breytingar sem fræðimenn telja veigamiklar og flutningsmenn sjálfir telja að skipti miklu máli. Það er því meiri bragur á því ef talsmenn ríkisstjórnarflokkanna og annarra þeirra flokka sem bera þetta mál fram tækju þátt í þeirri umræðu sem hér á sér stað.

Það vill svo til, herra forseti, að í ræðum okkar sjálfstæðismanna hafa komið fram margháttaðar athugasemdir og spurningar sem kalla á svör frá þeim sem bera málið fram, margar spurningar sem ekki hefur verið svarað. Það er auðvitað mikilvægt að þau svör komi fram áður en þessari umræðu lýkur þannig að það liggi fyrir hvernig áhugamenn um framgang þessa máls meta þau vafamál sem við höfum vakið athygli á og við getum betur áttað okkur á því hvað þeir eru að fara með ýmsum þeim hugmyndum, tillögum, m.a. breytingartillögum, sem fyrir liggja í málinu. Ég held að þetta sé mikilvægt.

Í annan stað vildi ég nefna það að í umræðum fyrir u.þ.b. hálftíma áttu sér stað nokkur orðaskipti milli hv. þingmanna Guðfinnu S. Bjarnadóttur og Álfheiðar Ingadóttur vegna þess atriðis að í breytingartillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir að kosningar til stjórnlagaþings skuli fara fram á sama tíma og kosningar til sveitarstjórna næsta vor. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hélt því fram að málið hefði verið rætt við fulltrúa sveitarstjórna á fundi í nefndinni en þau ummæli hennar eru þess eðlis að það verður að skýra nánar frá því þannig að það komist þá a.m.k. inn í þingskjöl hvernig að því var staðið.

Það mál bar þannig að að fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga — þeir starfsmenn komu á fund sérnefndar um stjórnarskrármál til þess að gera grein fyrir umsögn sinni um það frumvarp sem hér er til umræðu. Sú umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga var afar gagnrýnin á marga þætti frumvarpsins og Samband íslenskra sveitarfélaga taldi ótækt að afgreiða málið með þeim vinnubrögðum sem viðhöfð höfðu verið. Nokkrar umræður spunnust milli nefndarmanna og fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, m.a. um þann þátt sem laut að kosningunum. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, spurði þessa tvo starfsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga hvernig þeim litist á að það yrði kosið til stjórnlagaþings samhliða sveitarstjórnarkosningunum. Þessir starfsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga höfðu ekki heyrt eða séð þá tillögu nokkru sinni áður, sögðust í fljótu bragði ekki sjá neitt því til fyrirstöðu en tóku fram að þeir hefðu ekki farið yfir þetta mál eða tekið afstöðu til þess.

Um annað samráð eða samtöl við sveitarfélögin var ekki að ræða í sambandi við þessa breytingartillögu. Ekki var um það að ræða að Samband íslenskra sveitarfélaga, stjórn þess eða skrifstofu, væri með neinum hætti tilkynnt að meiri hlutinn hygðist flytja breytingartillögu sem fæli þetta í sér. Ekki var með neinum hætti reynt að kalla fyrir, þegar breytingartillagan lá fyrir, fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga til þess að ræða þetta mál við þá, það var ekki neitt gert. Það eina sem gerðist var, eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir lýsti sjálf hér í umræðum fyrir nokkrum dögum, að hún nefndi þetta við tvo starfsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem komu á fund nefndarinnar, hún nefndi þetta svona í framhjáhlaupi. Það er mikilvægt að þetta liggi fyrir vegna þeirra orðaskipta sem hér áttu sér stað.

Þess ber reyndar að geta að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, sagði í viðtali við vefmiðilinn Vísi á laugardaginn að honum þætti þessi hugmynd, að láta kjósa til stjórnlagaþings samhliða sveitarstjórnarkosningum, varhugaverð og nefndi að kosning til stjórnlagaþings gæti truflað bæði kosningabaráttu og kosningaframkvæmd varðandi sveitarstjórnarkosningarnar. Ég sé að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur óskað eftir að veita andsvar við mig og mun hún væntanlega taka undir þá lýsingu sem ég hafði á þessum atburðum í sérnefnd um stjórnarskrármál.

Af því að ég vík hér að þeim breytingartillögum sem meiri hluti sérnefndar um stjórnarskrármál leggur fram við frumvarpið vil ég takmarka mig við breytingartillögurnar varðandi stjórnlagaþingið en mun væntanlega koma að öðrum þáttum síðar í þessari umræðu. Breytingartillögurnar sem meiri hluti sérnefndarinnar gerði ráð fyrir og leggur hér fyrir fela í sér mjög veigamiklar breytingar á þeirri hugmynd um stjórnlagaþing sem lá fyrir í upphaflegu frumvarpi ríkisstjórnarflokkanna og meðreiðarsveina þeirra hér í þinginu. Við skulum aðeins rifja upp hvernig það er.

Í breytingartillögum meiri hluta sérnefndarinnar er miðað við að kosið verði mun síðar en áður var áformað og samhliða sveitarstjórnarkosningunum eins og ég nefndi. Miðað er við að þingið hefji störf 17. júní en ekki 1. desember eins og gert var ráð fyrir í upphaflegum tillögum og að það starfi í eitt ár en ekki 18 mánuði eða tvö ár eins og gert var ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi. Eins er látið liggja milli hluta í nefndaráliti meiri hlutans hvort þingfulltrúar á stjórnlagaþinginu eigi að vera í fullu starfi eða hlutastarfi, það er látið liggja milli hluta, ekki er tekin afstaða til þess. Því er gefið undir fótinn í nefndarálitinu að í stað þess að stjórnlagaþingið starfi samfellt, eins og ráða mátti af upphaflegu frumvarpi, geti það hugsanlega starfað í fáa daga í senn nokkrum sinnum yfir starfstímann og þessi atriði, töluvert mikilvæg atriði sem snúa að starfsemi stjórnlagaþingsins, eru í raun og veru skilin eftir í lausu lofti.

Þó má ætla að það sé vilji meiri hlutans í sérnefnd um stjórnarskrármál að þetta verði með þessum hætti, þ.e. að stjórnlagaþingsfulltrúarnir verði í hlutastarfi en ekki í fullu starfi og að þingið starfi bara í fáeina daga í senn við og við á starfstímanum vegna þess að meiri hlutinn lét gera fyrir sig kostnaðarmat í fjármálaráðuneytinu sem byggist einmitt á þeim forsendum. Þetta skjal hefur verið lagt fram hér í þinginu sem sönnun fyrir því að hægt sé að gera stjórnlagaþing mun ódýrara en gert var ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi. Miðað við það, miðað við þær forsendur sem formaður sérnefndarinnar, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, lagði fyrir fjármálaráðuneytið — hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kvaddi okkur hér í þinginu á laugardaginn, mér er ekki kunnugt um hvort hún hefur sagt af sér þingmennsku eða hvort hún er bara í leyfi. Mér er heldur ekki kunnugt um hvort hún hyggst kalla inn varamann fyrir sig en það hafa sumir þingmenn gert fyrir fáa daga eins og sjá má. (Gripið fram í.) Nú er það þannig að miðað við kostnaðarmatið gerir meiri hlutinn ráð fyrir því að stjórnlagaþinginu verði breytt verulega frá því sem upphaflega var áætlað. Það verður miklu minna umfangs, starfar í miklu skemmri tíma og gert er ráð fyrir miklu minna framlagi af hálfu þingfulltrúa en í upphaflegu frumvarpi.

Þeirri spurningu hefur hins vegar ekki verið svarað, og ég væri þakklátur ef þeir hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sem hér eru staddir gætu uppfrætt mig um það, hvaða forsendur breyttust svo að þeir telja nú að hægt sé að láta stjórnlagaþingið sinna hlutverki sínu með svo miklu minna umstangi og starfi en áður var áformað. Hvað breyttist? Nú hlýtur einhver hugsun að hafa verið á bak við upphaflegar tillögur. Það hlýtur að hafa verið ákveðin hugsun á bak við það að gert var ráð fyrir því að þingið starfaði í eitt og hálft til tvö ár og þingfulltrúar væru í fullu starfi, væntanlega hefur einhver rökstuðningur verið á bak við það. Þetta var inni í frumvarpi sem fylgdi sem fylgiskjal með stjórnarskrárbreytingartillögunum frá hv. þingmönnum og ráðherrum Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingrími J. Sigfússyni og hv. þingmönnum Birki J. Jónssyni og Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Við í sérnefndinni fengum engar skýringar á því hvers vegna menn hefðu allt í einu uppgötvað að hægt væri að gera þetta með miklu minna umstangi en áður var áformað. Ég reikna með að upphaflegu tillögurnar hafi verið settar fram á grundvelli einhvers mats á því hvað fram mundi fara á stjórnlagaþinginu. Þá spyr ég: Hvað breyttist í því mati sem gerði það að verkum að hægt er að fara með það niður í það umfang sem finna má í breytingartillögunum? Hvað breyttist? Okkur var ekkert sagt frá því og það hefur ekkert komið fram hér í umræðunni.

Það væri vissulega fengur að því ef einhver þingmaður hv. stjórnarflokka gæti útskýrt það hvers vegna þær forsendur sem ráðgjafarnefndin og flutningsmenn frumvarpsins lögðu upp með hér í byrjun mars — flutningsmennirnir skrifuðu upp á þetta, fengu til þess stuðning þingflokka sinna, ráðgjafarnefndin útfærði þessar hugmyndir en í nefndarstarfinu er allt í einu hægt að skera þetta allt saman verulega niður án vanda en það var ekkert útskýrt í nefndinni hvernig væri hægt að skera þetta niður.

Nú vil ég taka fram að ég fagna því vissulega að ef á annað borð á að fara út í að stofna stjórnlagaþing sé það gert með ódýrari hætti, ég fagna því, ég er ekki óánægður með það. Ég tel að tillögurnar séu að þessu leyti til bóta. Það vekur mér hins vegar nokkurn ugg hvað það eru margir óvissuþættir sem breytingartillögur meiri hluta sérnefndarinnar og nefndarálit sérnefndar, meiri hlutans, fela í sér, hve margir óvissuþættir eru fyrir hendi varðandi þetta stjórnlagaþing. Að mínu mati er engin leið fyrir hv. þingmenn hér á Alþingi að taka afstöðu til þeirrar hugmyndar um stjórnlagaþing sem fram kemur í breytingartillögunum, einfaldlega vegna þess að það er allt í lausu lofti um svo marga hluti. Það er allt í lausu lofti um það hvernig kjósa eigi til stjórnlagaþingsins, allt í lausu lofti varðandi það hvernig stjórnlagaþingið eigi að starfa. Það er í rauninni verið að biðja menn að samþykkja eitt risastórt eyðuákvæði sem er háð mikilli óvissu og þingmenn hafa á þeim forsendum ekki hugmynd um hvað þeir eru að samþykkja ef þeir samþykkja tillögurnar eins og þær liggja nú fyrir.

Varðandi kosningar til stjórnlagaþings leyfi ég mér að lesa kafla úr nefndaráliti meiri hlutans í sérnefndinni: Þar segir, með leyfi forseta:

„Í drögum að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing sem er fylgiskjal með frumvarpi til stjórnskipunarlaga er lagt til að kosið verði persónukjöri á þingið. Meiri hlutinn“ — þ.e. meiri hlutinn í sérnefndinni — „leggst ekki gegn slíkri kosningu en áréttar þó mikilvægi þess að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar. Ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mun verða stjórnarskrá þjóðarinnar allrar. Enda þótt aðkoma almennings alls verði tryggð, t.d. með opnum fundum, upplýsingagjöf og málþingum og að auðvelt verði að senda inn umsagnir, þarf jafnframt að tryggja að á þinginu sjálfu sitji þjóðin öll eða fulltrúar hennar.“ — Þjóðin öll eða fulltrúar hennar? — „Meiri hlutinn telur því mikilvægt að reglur um persónukjör verði með þeim hætti að tryggt verði að fulltrúar landsbyggðar og landshluta fái sæti, hvort sem það verður gert með ríkari reglum um kjör eða reglum um einhvers konar jöfnunarsæti. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að reglur um kjörið verði með þeim hætti að tryggt verði eins og hægt er jafnt kynjahlutfall á þinginu.“

Hvað í veröldinni er átt við með þessari málsgrein? Hvað í veröldinni á meiri hlutinn við? Hvernig sér meiri hlutinn fyrir sér að kosið verði á stjórnlagaþing miðað við þær leiðbeiningar sem er að finna í þessu nefndaráliti? Það er mér algjörlega óskiljanlegt.

Tökum það fyrsta. Meiri hlutinn segir að hann leggist ekki gegn því að kosið verði persónukjöri á þingið. Það er rétt að taka það fram að í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir því afdráttarlaust að um persónukjör væri að ræða, m.a.s. útfærsla á því. Nú er meiri hlutinn ekki vissari í sinni sök en svo að hann segist ekki leggjast gegn slíkri kosningu, þ.e. kosningu með persónukjöri.

Svo koma nokkur gullkorn. Meiri hlutinn „áréttar þó mikilvægi þess að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar“. Þetta er sett fram með þeim hætti að það mætti halda að það væri einhver mótsögn í því að kjósa persónukjöri annars vegar og að það verði fulltrúar þjóðarinnar hins vegar. Ég geri ekki ráð fyrir því að þetta séu bara slagorð þannig að ég ætla ekki að leggja meiri merkingu í þetta.

Síðar segir að það verði að tryggja að á þinginu sitji þjóðin öll eða fulltrúar hennar — að á þinginu sjálfu sitji þjóðin öll, hvað á fólkið við? Hvað í veröldinni eiga hv. þingmenn við, hvernig ætla þeir að útfæra þing þar sem þjóðin öll situr? Það síðara, að þar sitji fulltrúar hennar, er auðskiljanlegt, það er eins og Alþingi, þar sitja fulltrúar þjóðarinnar, kosnir eftir sérstökum reglum. Ég geri ráð fyrir því að niðurstaðan verði sú að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar kosnir eftir sérstökum reglum. Það er bara engar leiðbeiningar að finna í frumvarpinu, í breytingartillögunum eða í nefndarálitinu um það hvernig það kjör á að fara fram.

Síðan er sagt, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur því mikilvægt að reglur um persónukjör verði með þeim hætti að tryggt verði að fulltrúar landsbyggðar og landshluta fái sæti, hvort sem það verður gert með ríkari reglum um kjör eða reglum um einhvers konar jöfnunarsæti.“

Ég verð að játa það að mér er það alveg óskiljanlegt hvernig á að útfæra persónukjör þannig að tryggt sé að fulltrúar landsbyggðar eða landshluta eigi þar sæti öðruvísi en að skipta landinu upp í kjördæmi. Ef skipta á landinu upp í kjördæmi í þessu kjöri væri mjög gott ef meiri hlutinn eða fulltrúar hans gætu útskýrt það fyrir okkur hvaða hugmyndir þeir hafa í því sambandi. Ætla þeir að skipta landinu í kjördæmi eða ætla þeir að hafa landið eitt kjördæmi við þetta kjör eins og fram kom í upprunalegu frumvarpi? Það er mikilvægt að það liggi fyrir.

Ég spyr: Ef það á að vera um persónukjör að ræða, hvernig ætla menn að útfæra jöfnunarsæti? Jöfnunarsæti eru, eins og við vitum, notuð til þess að jafna milli flokka, jafna milli framboðslista yfir landið. Þegar landinu er skipt í kjördæmi getur það orðið svo að einhver atkvæði flokks nýtist ekki til þess að fá þingmann í viðkomandi kjördæmi og þá er úthlutað jöfnunarsætum þannig að endanleg niðurstaða við kjör til þingsins endurspegli í ríkari mæli fylgi flokksins yfir landið. En persónukjör og jöfnunarsæti eru í mínum huga algjörar mótsagnir, algjör vitleysa. Ef ég er á villigötum og hv. fulltrúar meiri hlutans í nefndinni hafa rétt fyrir sér, að hægt sé að útfæra persónukjör með jöfnunarsætum, þá bið ég þá vinsamlegast að koma hingað upp í ræðustól og útskýra það fyrir mér.

Sama á í sjálfu sér við um kynjahlutfall. Það kann að vera að hv. fulltrúar meiri hlutans hafi um það hugmyndir en ég átta mig ekki á því hvernig þeir ætla að útfæra kosninguna þannig að kosið sé persónukjöri, þannig að fólk merki við ákveðna einstaklinga sem eru í framboði, og ætli jafnframt að tryggja að kynjahlutfall verði jafnt.

Herra forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu en ég álít að þessi kafli í nefndarálitinu sé bara samansafn af slagorðum og áróðurspunktum sem sett eru fram til þess að reyna að slá á gagnrýnisatriði sem hafa komið fram varðandi þetta frumvarp, að í þeim sé engin meining og fulltrúar meiri hlutans hafi ekki hugmynd um hvernig þeir ætla að ná þeim markmiðum sem þarna eru sett. Ég álít því að með nefndaráliti meiri hlutans sé að þessu leyti verið að reyna að fá þingið til þess að samþykkja þetta frumvarp og breytingartillögurnar á röngum forsendum.