136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:00]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir þessa ræðu. Hann hefur greinilega kynnt sér mjög vel nefndarálit meiri hluta sérnefndarinnar og ég verð að segja að það er meira en ýmsir aðrir þeir sem hér hafa talað langt og mikið mál undanfarna sólarhringa, hafa gert. Ræður margra hafa aðallega snúist um form en ekki innihald. Í þrígang hef ég farið upp í andsvar til að benda mönnum á að þeir færu ekki með rétt mál og vísaði á þetta nefndarálit þar sem rökstuðning er að finna við þær breytingartillögur sem nefndin leggur til.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að staðfesta það sem ég áðan sagði um orð fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga sem mættu á fund sérnefndarinnar og voru þá spurðir hvort þeir sæju eitthvað því sérstaklega til fyrirstöðu að kjósa á sama tíma til stjórnlagaþings og til sveitarstjórnar. Hv. þingmaður spurði af hverju menn sæju allt í einu möguleika á minni umsvifum stjórnlagaþings eftir þetta nefndarstarf. Ég svara því þannig til að með því er í rauninni verið að koma til móts við þau sjónarmið sem bentu á mikinn kostnað, jafnvel óheyrilega mikinn kostnað sem væri því samfara að fara að upphaflegu tillögunni. Þarna er sem sagt tvöföld ástæða að baki, annars vegar til sparnaðar, sem hlýtur að vera eðlilegt að horfa til, en einnig til samkomulags við sjálfstæðismenn sem gagnrýndu þennan þátt verulega.

Hv. þingmaður sagðist fagna því og ég verð að segja að nefndarstarfið bar að þessu leyti árangur. Þannig hefur það nú löngum verið undanfarið í nefndum þingsins og það tel ég gott.