136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:04]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Um þetta mál hefur verið fjallað í nefnd. Við fjöllum um meirihlutaálit frá hv. sérnefnd um stjórnarskrármál. Ég veit ekki til þess að nefndarálitið hafi verið borið sérstaklega undir flutningsmenn eða ráðherra, enda væri það ekki við hæfi að mínu viti. Ég veit hins vegar að það hefur verið kynnt formönnum allra stjórnmálaflokkanna, þar á meðal hv. formanni Sjálfstæðisflokksins Bjarna Benediktssyni.

Það virðist vera svolítið erfitt fyrir menn að átta sig á þeirri breytingu sem orðið hefur á störfum þingsins með því að þingnefndir breyta nú málum sem ráðherrar leggja inn og það er staðreynd að ráðherrar hafa á undanförnum tveimur mánuðum mátt sætta sig við að málum þeirra sé breytt verulega í stóru og í smáu. Það er ekkert óeðlilegt við það, það er í rauninni eðlilegt því að betur sjá augu en auga. Það er ágætismálsháttur sem á við t.d. þegar menn setjast niður í nefndum þingsins og fara yfir málin, fara yfir umsagnir, hlusta á og rökræða við þá gesti sem koma og síðast en ekki síst reyna að miðla málum með því að taka tillit til sjónarmiða Sjálfstæðisflokksins, eins og hér á við. Þá breytist niðurstaða málsins og það hefur ekkert með það að gera hvort mál hafi verið vanreifað eða ekki. Ég held að það hljóti allir að fagna því ef það tekst að setja stjórnlagaþingið upp án hins mikla kostnaðar — innan við fjórðung af upphaflega áætluðum kostnaði. Ég tel það vera mikinn árangur af nefndarstarfinu.