136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Fáein atriði. Við hv. þm. Álfheiður Ingadóttir erum sammála um að það er gott ef við getum sparað, það er mjög gott.

Varðandi hins vegar hvernig málið er í rauninni vanreifað og vanhugsað að mínu mati virðist það taka miklum kollsteypum. Við minnumst þess þegar hv. þingmenn Framsóknarflokksins lögðu fram frumvarp í byrjun febrúar um stjórnlagaþing — það hefur verið þeim mikið hjartans mál — en það er þriðja útgáfa frumvarpsins. Við höfum tvær útgáfur í sambandi við þetta frumvarp og svo var þriðja útgáfan hjá framsóknarmönnunum í byrjun febrúar þannig að ... (Gripið fram í.) Breytingartillögur, hv. þingmaður, eru mjög algengar og hafa verið það lengi. Það er mjög algengt að þingnefndir breyti frumvörpum í veigamiklum atriðum, það er ekki bara á síðustu tveimur mánuðum sem það hefur gerst. Sem betur fer eru breytingar þingsins á frumvörpum oftast nær til bóta. Segja má að það hafi gerst hvað þetta varðar þótt okkur vanti enn þá efnislegan rökstuðning fyrir því hvernig menn sjá fyrir sér stjórnlagaþingið, hvernig menn sjá allt í einu fyrir sér að hægt sé að gera það með fjórðungi minna umstangi en upphaflega var áformað. Það er allt annað dæmi, allt önnur stofnun en upphaflega var lagt upp með.

En ég vek hins vegar athygli á því að hv. þingmaður — og kannski væri það ósanngjarnt af mér að ætlast til þess að hv. þingmaður svaraði fyrir hinn óskiljanlega kafla um kosningar til stjórnlagaþings sem er að finna í nefndarálitinu — en ég vek athygli á því að þeim þætti hefur ekki verið svarað, t.d. hvernig menn ætla að koma við persónukjöri og jöfnunarsætum og hvernig menn ætla að ná fram þeim markmiðum sem þar koma fram.